Ekki þurfti að rífa brúna þegar allt kom til alls
Í byrjun síðustu viku ruddi Svartá í Svartárdal sig og mátti litlu muna að brúin yfir ána við bæinn Barkarstaði færi af og fyrstu fréttir hermdu að hún væri ónýt og ekkert annað í stöðunni en að rífa hana. Í frétt á vef Vegagerðarinnar segir hins vegar að skemmdirnar hafi verið mun minni en í fyrstu var ætlað og var brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar ekki lengi að kippa brúnni í lag og var hún opnuð á ný sl. föstudag.
„Við fengum fréttir af því að brúin yfir Svartá, að bænum Barkarstöðum, hefði skemmst að morgni þriðjudagsins. Við fórum strax á staðinn til að skoða aðstæður og skipuleggja aðgerðir. Flokkurinn notaði daginn til að undirbúa sig og taka til allt það efni sem við gætum þurft til viðgerða og fluttum okkur svo á staðinn á miðvikudagsmorgun,“ segir Vilhjálmur Arnórsson, verkstjóri brúavinnuflokks Vegagerðarinnar frá Hvammstanga, í frétt á vef Vegagerðarinnar.
„Þetta leit mjög illa út, brúin var svo bogin og ekki munaði miklu að hún færi fram af. En bitarnir hafa sloppið óskemmdir og því hægt að koma brúnni aftur á réttan stað,“ segir Vilhjálmur. Flokkurinn vann síðan að því að festa brúna aftur, brúargólfið var rifið að hluta og fest á aftur, þá bognuðu stífur milli bita sem hefur verið skipt út. „Það var smá bras að koma brúnni aftur á réttan stað svo hægt væri að festa hana aftur í sætið, en þetta hófst allt saman.“ Á föstudeginum var m.a. unnið við að bráðabirgðatengja vegrið á brúna svo hún yrði fær undir kvöldið en Vilhjálmur segir áætlað að fara í lokafrágang nú í vikunni.
Hann segir íbúa á bæjum hinumegin brúarinnar hafa verið nokkuð rólega yfir þessu havaríi. „Þau hafa fengið eitthvað sent af vörum, og svo fóru feðgar gangandi yfir brúna eitt kvöldið til að fara á árshátíð í skólanum,“ hefur tíðindamaður Vegagerðarinnar eftir glettnum Vilhjálmi að lokum.
Heimild og sjá nánar > Vegagerðin.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.