Dýrið og Blíða er fyrsta verkefni Leikfélags Blönduóss í níu ár
„Dýrið og Blíða er fjölskylduleikrit frá 1951, byggt á ævintýrinu sígilda. Disney-myndin vinsæla byggir á sömu sögu en efnistökin eru nokkuð ólík. Höfundur verksins [Nicholas Stuart Gray] er eitt ástsælasta barnaleikskáld Breta og verkið er leiftrandi af breskum húmor. Ævintýrið er fallegt og aðeins sorglegt, smekkfullt af töfrum. Verkið hentar allri fjölskyldunni nema kannski allra yngstu börnunum,“ sagði Sigurður Líndal, leikstjóri, þegar Feykir spurði hann út í verkið sem Leikfélag Blönduóss frumsýnir laugardaginn 29. apríl. Í spjalli Feykis við Evu Guðbjartsdóttur, forynju félagsins, hvetur hún heimafólk til að mæta í leikhús. „Ykkar stuðningur skiptir menningarlíf samfélagins öllu máli, því án leikhúsgesta er ekkert leikhús.“
„Leikfélag Blönduóss setti síðast upp leiksýninguna Dagbókina hans Dadda árið 2014 og er því komin langur tími síðan að virkni var í fallega leikhúsinu okkar,“ segir Eva þegar spurt er hversu langt er síðan Leikfélag Blönduóss setti síðast upp sýningu. „Ég tók við sem forynja á því herrans kóvid ári 2020 og hefur verið erfitt að taka sénsinn á að setja upp síðan þá en nú skulum við rísa úr öskunni í klappið! Leikfélagið stefnir á að halda úti samfleitu starfi með sýningu annað árið og námskeið og skemmtikvöld hitt árið. Er það okkar von að það verði til þess að við náum að laða inn ný andlit og stækka leikhópinn okkar.
Hversu margir koma að sýningunni um Dýrið og Blíðu? „Í þessari sýningu erum við með hátt í 30 manns sem koma að ýmsum málum og á mjög breiðu aldursbili en leikarahópurinn okkar er frá 13 og upp í 48 ára.“
Hvað getur þú sagt okkur um leikstjóra verksins? „Sigurður Líndal er búsettur á Hvammstanga ásamt hæfileikaríku konu sinni, Gretu Clough, en þau stofnuðu og eiga Brúðuleikhúsið Handbendi sem hefur aldeilis komið sér á kortið. Sigurður hefur starfað í leikhúsinu í 25 ár hérlendis og erlendis og komið að allskyns flottum sýningum og sýnt og sannað hvernig hægt er að koma áhugaleikfélagi á annað stig.“
Hvernig gekk að að fá fólk til þátttöku og hvernig hefur undirbúningur gengið? „Það hefur gengið erfiðlega frá síðustu uppsetningu að koma saman leikhópi og er það megin ástæðan fyrir að ekki hefur verið sett upp undanfarinn áratuginn. Í þetta skiptið létum við allt okkar traust og trú á nýjan leikhóp sem hefur ekki allur reynslu í leikhúsi en hefur tekist á við þetta verkefni af æðruleysi og trompi þrátt fyrir ýmsar hindranir – en við áttum í miklu basli með að finna aðalleikonuna sem kom svo svífandi frá Hvammstanga, nýorðin 13 ára, þegar langt var liðið á æfingaferlið og mikið sem við erum þakklát fyrir það!“
Dýrið og Blíða verður sýnt í Félagsheimilinu á Blönduósi og er stefnt á fjórar sýningar en aðalsalurinn tekur 188 í sæti og á svölum eru sæti fyrir 76 til viðbótar. Það geta því 264 mætt í leikhús á Blönduósi. „Við stærum okkur af því að eiga eitt fallegasta leikhús landsins enda er salurinn algjör demantur. Franska viðarklæðningin, lýsingin, retró sætin með fallega rauða bólstrinu – og svalirnar, eins og í bíómynd! Eða leikhúsi! Nú stendur til hjá nýrri sveitarstjórn að bólstra sætin upp á nýtt og verða leikhúsgestir í fjórum fremstu röðunum í ný bólstruðum sætum. Svo það eru spennandi tímar framundan í leikhúsinu okkar, menningarhúsinu okkar allra,“ segir Eva.
Fyrst var leikið á Blönduósi árið 1897
Eva bætir við að leikhús í heimabyggð séu menningarverðmæti sem enginn ætti að taka sem sjálfsögðum hlut. „Í eina sýningu fara þúsund tímar í vinnu, mikill kostnaður og óeigingirnin skín í gegnum fjalirnar. Leikhús sem okkar rekur sögu sína aftur til 1897 þegar fyrsta verkið var sýnt á Blönduósi. Það starfaði nánast óslitið frá formlegri stofnun Leikfélags Blönduóss árið 1944 og fram að aldamótum, með sýningu hvert einasta ár – allt í sjálfboðavinnu. Leikfélög landsins er menningararfur- og verðmæti okkar sem ber að varðveita. Þessi félög byggðu mörg hver ásamt fjölmörgum félagasamtökum upp félagsheimili landins og eiga þau skilið að fólk sýni viljann fyrir verkið og mæti á þær sýningar sem settar eru upp, þeim og okkar dýrmætu menningarhúsum til stuðnings. Menningarhúsin okkar hafa ótvíræð jákvæð margfeldisáhrif, bæði á bæinn og nærsamfélög.“
Hún segir enga skömm í að komast ekki á sýningu en þá sé alltaf hægt að kaupa miða og óska eftir að nota hann ekki – svo leikhúsið hafi hvata til að halda áfram. „Ykkar stuðningur skiptir menningarlíf samfélagins öllu máli, því án leikhúsgesta er ekkert leikhús. Verið velkomin, við hlökkum til að sjá ykkur í fallegasta leikhúsi landsins – loksins!“ segir Eva Guðbjartsdóttir, forynja Leikfélags Blönduóss, að lokum.
- - - - -
Sýningar verða sem hér segir:
Frumsýning laugardaginn 29. apríl kl. 15
2. sýning sunnudaginn 30. apríl kl. 15
3. sýning þriðjudaginn 2. maí kl. 17
4. sýning miðvikuaginn 3. maí kl. 17
Myndirnar tók Róbert Daníel Jónsson á æfingu Dýrsins og Blíðu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.