Dásamleg upplifun sælkera á Bjórhátíðinni á Hólum
Bjórhátíðin á Hólum verður haldin nk. laugardag 1. júlí og er það í ellefta sinn sem hún er haldin. Hátíðin stendur frá kl 15:00 – 19:00 en á svæðið mæta helstu bjórframleiðendur landsins og kynna fjölbreytt úrval af gæðabjóra.
„Á hverri hátíð eru þrír bestu bjórar landsins valdir af gestum hátíðarinnar og veitt er viðurkenning fyrir besta básinn. Á hátíðinni verður einnig hægt að gæða sér á gómsætum matarbita með skagfirsku, argentísku og indversku ívafi. Því má með sanni segja að þetta sé dásamleg upplifun fyrir sælkera þar sem bragðlaukarnir dansa á meðan bjór og aðrar veitingar renna ljúft niður,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir, ein skipuleggjenda hátíðarinnar.
Dagskráin er eftirfarandi:
15:00 húsið opnar. Brugghúsin kynna vörur sínar og mathúsin bjóða gómsætan mat til sölu.
16:00 kútarall í biskupsgarðinum
17:00 Happdrætti. Glæsilegir vinningar, má þar nefna gistingu hjá ferðaþjónustunni á Hólum, bruggdagur á Bjórsetrinu ásamt alls konar gjafabréfum.
18:30 Niðurstöður kosninga kynntar. Besti bjórinn og besti básinn.
19:00 Dagskrárlok.
Að sögn Gunnhildar er miðasala hafin á TIX.is en ekki þarf að kaupa miða á hátíðina ef einungis á að koma og gæða sér á matarbitunum sem verða í boði.
„Verið velkomin heim að Hólum!“ segir hún og hvetur alla til að kíkja á heimasíðu hátíðarinnar þar sem hægt er að nálgast allar upplýsingar um brugghúsin og það sem mathúsin bjóða upp á, sjá HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.