Byggjum upp Kjalveg – Leiðari Feykis
Átta þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um endurnýjun vegarins yfir Kjöl með einkaframkvæmd en með heilsársvegi væri mögulegt að stytta til muna leiðina landshorna á milli og auðvelda þannig ferðir á milli Suður- og Norðurlands og opna fyrir möguleika á þróun nýrra ferðamannaleiða.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að tillagan geri ráð fyrir því að vegurinn yrði endurnýjaður þannig að hægt verði að halda honum opnum stóran hluta ársins, en ráðgert er að verkefnið verði unnið sem einkaframkvæmd.
„Við þekkjum að það er fátt sem styrkir byggðirnar jafn mikið og bættar samgöngur. Það er stórt og mikið mál innan ferðaþjónustunnar að skapa forsendur fyrir betri dreifingu erlendra ferðamanna um allt land. Allt Ísland, allt árið. Mjög stór hluti allra ferðamanna sem sækja Ísland heim leigja sér bílaleigubíl og keyra um á eigin vegum. Ég er fullviss um að uppbygging Kjalvegar er mikið framfaramál sem myndi styrkja byggðirnar bæði norðan og sunnan heiða,“ segir Njáll Trausti, fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Þetta tel ég að yrði mikið framfaraskref í samgöngumálum í landinu og ekki síður til að opna greiðfæra leið fyrir ferðamenn að hálendinu. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að einhverjir eru mér ekki sammála í þessum efnum, fólk sem vill takmarga aðgengi að ósnortinni náttúru, hvað svo sem í því felst, svo alvöru útivistarfólk geti haft þetta út af fyrir sig. Séð hef ég haft eftir fólki, sem telur sig verndara hálendisins, að ökumenn á Yaris eiga ekkert erindi á hálendið. Það felst jafn mikill hroki í þeim orðum og segja fötluðum að þeir hafi ekkert að gera upp í Hveravelli eða Kerlingafjöll.
Þegar þessi pistill er í smíðum er akstursbann á öllum hálendisvegum landsins á meðan frost fer úr jörðu en það skrítna er að hitastig á Hveravöllum, skv. mælum Vegagerðarinnar, er 10 gráður meðan það eru einungis fimm stig á Vatnsskarði og sjö á Öxnadalsheiði. Eðlilega eru hálendisvegir viðkvæmir og bera ekki umferð á þessum tíma enda í langflestum tilfellum niðurgrafnir ýtuslóðar í mikilli hæð yfir sjávarmáli. Það væri líklega einnig lokað til Akureyrar ef um heiðina væri boðið upp á slíka akvegi. Það er forvitnilegt að sjá hve litlu munar á Kjalvegi sem hæst stendur við Fjórðungsöldu 672 m.y.s. og Öxnadalsheiði sem nær upp í 540 m hæð.
En á meðan ekki er bætt úr þessu hafa björgunarsveitir nóg að gera við að draga bíla úr ófærum líkt og Björgunarfélagið Blanda á Blönduósi gerði á dögunum en þá hafði ferðafólk farið á fólksbíl upp á Kjalveg en fest sig í snjóskafli við Gíslaskála. Því miður var lokað þar en á heimasíðu skálans má sjá að þar er boðin fyrsta flokks aðstaða fyrir ferðamenn á reginfjöllum. „Tilvalinn dvalarstaður fyrir þá sem vilja njóta óspilltrar náttúru og öræfakyrrðar á hálendi Íslands.“
Góðar stundir!
Páll Friðriksson, ritstjóri
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.