Bryndís Bragadóttir kosin maður ársins í Austur-Húnavatnssýslu
Lesendur Húnahornsins hafa valið Bryndísi Bragadóttur sem mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2022 en Bryndís er hárgreiðslukona á Blönduósi og hefur klippt og snyrt hár Blönduósinga og nærsveitunga í tæp 40 ár.
Á Húni.is segir að Bryndís hafi opnað hárgreiðslustofu á Blönduósi árið 1987 en hafi látið staðar numið nú um áramótin. Þórdís Erla Björnsdóttir, sem var hárgreiðslunemi hjá Bryndísi, tók þá við rekstrinum. Tilkynnt var um niðurstöðuna í valinu á Blöndublóti sem fram fór í Félagsheimilinu á Blönduósi sl. laugardagskvöld.
„Í innsendri tilnefningu um Bryndísi segir m.a.: Bryndís hefur staðið klippivaktina á Blönduósi í nánast 40 ár, hún er ósérhlífin og dugleg og ekki sjálfgefið í dag að fólk endist svona lengi í þessum bransa. Hún er alltaf tilbúin til að bjarga eða redda málunum þegar upp koma neyðartilvik fyrir stórviðburði. Bryndís hugsar einnig vel um eldra fólkið okkar og fer upp á sjúkrahús og klippir og snyrtir vistfólk þar sem á ekki heimangengt.“
Þetta er í 18. sinn sem lesendur Húnahornsins velja mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu en HÉR er hægt að sjá hverjir hafa fengið þann titil frá upphafi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.