BÓKHALDIÐ | „Svaf varla meðan ég var að gúffa í mig góðgætinu“

Eiríkur Örn Norðdahl á Ísafirði. MYND: BALDUR PAN
Eiríkur Örn Norðdahl á Ísafirði. MYND: BALDUR PAN

Þá stendur hið kyngimagnaða jólabókaflóð í hæstu hæðum og ekki annað í stöðunni en að kasta fyrir einn af stórlöxum tímabilsins. Ísfirðingurinn Eiríkur Örn Norðdahl var klár í að gera upp Bók-haldið í Feyki, enda ferskur og sprækur eftir upplestursrúnt kringum landið. Hann er fæddur og búsettur á Ísafirði, árgerð 1978, en kannast ekki við nein markverð tengsl við Norðurland vestra.

Eiríkur Örn er með sjóðheita bók fyrir þessi jólin, Náttúrulögmálin, sem Mál og menning gefur út. Bókin er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaun-anna í flokki skáldverka. Í umsögn um bókina segir að um sögulega skáldsögu sé að ræða, „...full af húmor og skrifuð af mikilli orðgnótt. Söguna einkennir rífandi frá-sagnargleði, listfengi í stíl og frumlegur söguþráður. Þrátt fyrir fjörið og léttleikann er hér tekist á við stórar heimspeki-legar spurningar svo úr verður innhaldsríkt og eftirtektarvert skáldverk.“

Rithöfundar skrifa ekki bara bækur, þeir lesa líka margir hverjir helling af þeim. Það kemur bersýnilega í ljós þegar Feykir forvitnast um bóklestur Eiríks Arnar en fyrst var hann spurður hvaða bók eða bækur hann væri með í takinu. „Ég er að lesa The Luck of Barry Lyndon eftir Thackeray og Glugga Draumskrá eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur.“

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina? „Glæpur og refsing eftir Dostojevskí, Gösta Berlings saga eftir Selmu Lagerlöf, The Zenith eftir Duong Thu Huong, Ef þetta er maður eftir Primo Levi, Froskmaðurinn eftir Guð-berg, Bréf til Láru – Algleymi Hermanns Stefánssonar, Tugt-hús Hauks Más Helgasonar, Tímaþjófur Steinunnar Sig-urðardóttur, Merking Fríðu Ísberg, Áhyggjudúkkur Steinars Braga, Codex 1962 eftir Sjón. Og nú síðast Armeló Þórdísar Helgadóttur. En listinn gæti líka verið miklu lengri.“

Hvers konar bækur lestu helst? „Ég les líklega langmest skáldsögur – helst svolítið óvenju-legar að formi og stíl, ég dáist að frumleika og vil láta ögra mér svolítið. Þarnæst les ég ljóð – helst sem allra skrítnust – og þar á eftir bækur um tónlist og tónlistarmenn.“

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn, manstu af hvaða bókum þú lærðir að lesa eða hvaða bækur kveiktu lestararáhugann hjá þér? „Ég var eitt af þessum sílesandi börnum sem kláraði fljótlega bókasafnið. Ég fór gjarnan þangað meðan ég var að bíða eftir því að mamma væri búin í vinnunni. Sennilega byrjaði ég á því að rífa í mig myndasögurnar – Tinna, Fjögur fræknu, Viggó og það allt saman.“

Hvaða bók er ómissandi, er einhver ein bók sem hefur sérstakt gildi fyrir þig? „Amma mín heitin gaf mér Þúsund og eina nótt í þremur bindum, þrjú jól í röð, þegar ég var krakki. Þetta eru stórar og langar bækur en dugðu mér aldrei fram að áramótum – ég dýrkaði þær og svaf varla meðan ég var að gúffa í mig góðgætinu. Ég hef varla verið nema 10 ára þegar ég fékk fyrstu, hugsanlega yngri, og komst fyrst að því þegar ég endurlas þær fullorðinn að þær eru alls ekki við hæfi barna. Sem truflaði mig merkilegt nokk lítið á sínum tíma – ég man alls ekki eftir því að þær hafi neitt gengið fram af mér eða ég hafi einu sinni skynjað að þetta væru einhver tabú. Mér fannst þetta bara æðislegar sögur. Og finnst enn.“

Bíðurðu spenntur eftir bókum frá einhverjum höfundi? „Ég verð æstastur yfir fallegum bókum – fallega umbrotnum, í fallegri kápu, ekki síst gömlum, ekki síst klassískum framúr-stefnuverkum, ekki síst konkretljóðum.“

Hvað er bók? „Þegar við í skáldakompaníinu Nýhil gáf-um út metsöluævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurar-sonar (Hannes, Hólmsteinn og Gissurarson) eftir Óttar Martin Norðfjörð – sem voru hver um sig eitt samanbrotið A4 blað – komumst við að því að bók er það sem fær ISBN númer, a.m.k. er það nóg til að komast á bóksölulistann. Ég veit reyndar ekki hvort búið er að breyta reglunum.

Áttu þér uppáhalds bókabúð? „Arkadia Books í Helsinki, þar sem ég átti heima um árabil, er besta bókabúð sem ég hef komið í. Ekki síst af því að eigandinn, Ian Bourgeot, rekur hana af ástríðu og tekur á móti öllum gestum af hlýju og forvitni. Þar má til dæmis þræða sig eftir rangölum niður í kjallara og finna bóka-kapelluna – þar þar sem liggur bók á dálitlum skenki, og svo glas, rauðvínsflaska og baukur, og maður getur fengið sér sopa, lesið í bókinni og skilið eftir frjálst framlag í bauknum.“

Hversu margar bækur heldurðu að þú eignist árlega? „Þær eru margar. Ekki færri en 1-2 á viku. Ég les þær flestar. Ljóðabókum safna ég og þær fara í hilluna á skrifstofunni minni – ég les sjaldan ljóða-bækur beint í gegn, heldur tek ég út eina og eina bók, eftir því sem ég hef áhuga, og blaða í þeim. Á endanum klárast þær auðvitað.“

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni? „Já, ég fer mikið á Bókasafnið á Ísafirði – og hef miklar mætur á bæði safninu, húsinu og fólkinu sem þar starfar.“

Hvaða bók heldurðu að þú hafir lesið oftast eða er einhver bók sem þér finnst þú ættir að lesa árlega? „Líklega hef ég lesið Glæp og refsingu eða Mómó eftir Michael Ende oftast. Ég les þær aftur af því ég gleymi þeim – ég er hræðilega gleyminn.“

Hefur þú heimsótt staði sérstaklega vegna þess að þeir tengjast bókum sem þú hefur lesið?Ég fór einu sinni í göngutúr um söguslóðir Trainspotting í Leith á Skotlandi – meðal annars með kollega mínum Stefáni Mána. Það var áhugavert, ekki síst af því að fararstjórinn okkar var orðinn vel fullur áður en túrinn hálfkláraðist og við enduðum með honum inn á einhverri sóðaknæpu – sem var í sjálfu sér einsog klippt út úr bókinni.“

Hver er eftirminnilegasta bókin sem þú hefur fengið að gjöf? „Steinar Bragi vinur minn gaf mér einu sinni eintak af Ytri höfninni eftir Braga Ólafs – sem er árituð frá Braga til Dags, sem ég held að hafi verið Dagur Sigurðarson.“

Hvað er best með bóklestri? „Þögn.“

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu? „Það fer eftir vininum – en yfirleitt reyni ég að gefa fólki eitthvað úr deiglunni, eitthvað nýtt og spennandi.“

Feykir þakkar Eiriki Erni fyrir spjallið og óskar honum gleðilegra jóla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir