„Bók er heill heimur“
Sumir elska bækur og þannig er því svo augljóslega farið með gagnrýnendur Kiljunnar hans Egils Helga. Hættulega bráðsmitandi ást sem smitast í gegnum Sjónvarp allra landsmanna og fær fólk, í sumum tilfellum, til að stökkva út í næstu bókabúð eða á bókasafn og grípa sér bók að lesa. Það er svo annað mál hvort ástin endist aftar en á blaðsíðu átta eða hvort úr verður óendanlegt ástarævintýri. Einn þessara gagnrýnenda Kiljunnar er Sunna Dís Másdóttir og hún féllst á að svara Bók-haldinu í Feyki þegar eftir því var leitað. Svaraði því reyndar á ferð yfir Holtavörðuheiðima en við verðum að ætla að hún hafi ekki verið við stýrið.
Sunna Dís er af árgangi 1983, fædd og uppalin í Reykavík þar sem hún býr í dag eftir búsetu í Svíþjóð á unglingsárunum. Hún er með MA próf í ritlist og annað í Hagnýtri menningarmiðlun frá HÍ, er sjálfstætt starfandi sem rithöfundur, gagnrýnandi, ritstjóri, þýðandi og ritlistarleiðbeinandi. „Margir hattar en allir bókmenntatengdir!“ segir hún. Spurð út í tengsl við Norðurland vestra þá svarar hún því til að þau séu ekki önnur en að hafa notið þar dvalar á ferðalögum. „Við þvælumst talsvert mikið um landið á sumrin með tjaldið fjölskyldan,“ bætir hún við.
Sunna Dís gaf á síðasta ári út ljóðabókina Plómur en hún hefur átt ljóð í fjórum bókum Svikaskálda á síðustu árum og var einnig einn af höfundum Uppskriftabókar sem kom út 2015. Svíkaskáld voru tilefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021 fyrir skáldsöguna Olía. Nú í byrjun árs hlaut Sunna Dís Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir prósaljóðið Á eftir þegar þú ert búin að deyja.
Þegar Feykir spyr hvaða bækur hún sé með á náttborðinu segir hún þær vera talsvert fleiri en manninum hennar finnst ásættanlegt. „Ég er yfirleitt með nokkrar í gangi í einu sem ég gríp í þegar ég er ekki að lesa „fyrir vinnuna“ og oftar en ekki á öðrum tungumálum líka. Þar má nefna On Earth We’re Briefly Gorgeous eftir bandarísk-víetnamska rithöfundinn Ocean Vuong, The Vanishing Half eftir Brit Bennett og Nightbitch eftir Rachel Yoder. Ég var að bæta leikritinu Sjö ævintýri um skömm eftir Tyrfing Tyrfingsson í staflann, af því að mér fannst það frábært og langar að rýna betur í textann, og svo Jarðsetningu eftir Önnu Maríu Bogadóttur sem ég er afar spennt fyrir.“
Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina? „Hroki og hleypidómar eftir Jane Austen í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur er líklega fyrsta fullorðinsbókin sem ég las aftur og aftur og aftur og get ennþá lesið aftur og aftur, svo ég nefni hana hér – en annars finnst mér þetta eins og að gera upp á milli barnanna minna!“
Hvers konar bækur lestu helst? „Ég er nú dálítil alæta en sogast helst að skáldsögum og ljóðum.“
Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn? „Ég lærði mjög ung að lesa og var snemma farin að afþakka kvöldlestur, vildi bara sjá um þetta sjálf. Mömmu leyfðist þó náðarsamlegast að lesa fyrir mig fullorðinsbækur, svo ég man eftir mörgum kvöldstundum með Lillu Heggu og Sálminum um blómið. Sjálf gleypti ég í mig barnadeildina á bókasafninu. Ég elskaði til dæmis Astrid Lindgren, sérstaklega Ronju ræningjadóttur, múmínálfana og allt eftir Guðrúnu Helgadóttur.“
Hvaða bók er ómissandi eða er einhver ein bók sem hefur sérstakt gildi fyrir þig? „Þær eru margar! Mér þykir óskaplega vænt um Laxness safnið sem ég erfði eftir Ara afa minn og líka eintakið af Martin og Viktoríu eftir Klaus Lyngaard sem ég fann á bókamarkaði nýlega – það var önnur bók sem ég las sundur og saman sem unglingur, eftir að hafa rænt henni úr hillunni hjá pabba, og alveg þar til hún liðaðist bókstaflega í sundur. Og svo þykir mér ofboðslega vænt um gömlu barnabækurnar mínar sem mamma geymdi og ég nýt þess að lesa með mínum börnum, ekki síst hinar dýrðarfallegu Jólasveinabók og Tröllabók eftir Rolf Lidberg sem við lesum á hverri aðventu.“
Hvaða rithöfundar eða skáld fá hjartað til að slá örar eða eru í uppáhaldi? „Þau eru mörg líka! Auður Ava og Guðrún Eva, Gyrðir og Jón Kalman sem dæmi.“
Hvað er bók? „Bók er heill heimur. Og hann er þeim undrum gæddur að geta bæði hrifið þig, lesandann, á brott úr þínum heimi og fært þig nær honum um leið.“
Áttu þér uppáhalds bókabúð? „Ég vann nokkur sumur í gömlu bókabúðinni á Flateyri sem þá var rekin af Minjasjóði Önundarfjarðar og seldi notaðar bækur eftir vigt - 1000 kall kílóið. Ég fæ sæluhrísl bara af því að hugsa um þann dásemdartíma. City Lights í San Francisco var líka æðisleg. Annars þrái ég að fá bókabúð með ranghölum að týnast í, helst í gömlu húsi sem brakar í, á mörgum hæðum og með góðu kaffi í Reykjavík.“
Hversu margar bækur heldurðu að þú eignist árlega? „Þetta var hressandi reikningsdæmi. Líklega eru þetta um 150 bækur á ári? Ég les langflestar en á einhverjar til góða.“
Ertu fastagestur á einhverju bókasafni? „Ég fer mest á Borgarbókasafnið í Grófinni þar sem ég er með skrifstofu í næsta nágrenni en svo er bókasafnið í Norræna húsinu í sérlegu uppáhaldi líka.“
Hvaða bók heldurðu að þú hafir lesið oftast eða er einhver bók sem þér finnst þú ættir að lesa árlega? „Hroka og hleypidóma eða Martin og Viktoríu (sjá ofar). Ég er ekki með neinar árlegar lestrarhefðir fyrir utan barnabækurnar sem við lesum saman – það er svo margt nýtt og spennandi að koma út svo ég hef ekki undan þar.“
Hefur þú heimsótt staði sérstaklega vegna þess að þeir tengjast bókum sem þú hefur lesið? „Ég hef ekki gert mér ferðir á söguslóðir sérstaklega, held ég. Hins vegar hef ég oftar en ekki fengið mat úr bókum á heilann og leitast kannski frekar við að borða bækur en heimsækja þær.“
Hver er eftirminnilegasta bókin sem þú hefur fengið að gjöf? „Maðurinn minn gaf mér ljóðasafn Páls Ólafssonar með þeim dásamlega titli Ég skal kveða um eina þig alla mína daga. Ég tók því sem ástarjátningu og skrifa 15 ára samband og tvö börn á þessa gjöf.“
Hvað er best með bóklestri? „Tebolli, mjúkt teppi, malandi köttur.“
Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu? „Það fer auðvitað alveg eftir viðtakanda – en mér finnst gott að gefa bækur sem hræra í mennskunni í okkur. Ör eftir Auði Övu, til dæmis.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.