Austmenn rændu og rupluðu í Vestrinu
Leikið var á Sjávarborgarvelli á Hvammstanga í 2. deildinni í dag en þá mættust heimamenn í Kormáki/Hvöt og gestirnir í Höttur/Huginn. Semsagt fjögurra liða leikur. Gestirnir úr austrinu hafa verið á góðu skriði upp á síðkastið, höfðu unnið síðustu þrjá leiki og létu það ekki trufla sig mikið að lenda undir því þeir snéru taflinu við á Tanganum og hirtu öll stigin sem í boði voru í 1-2 sigri.
Það var markahrókurinn Ismael Sidibe sem gerði fyrsta markið í leiknum á 37. mínútu. Þá var dæmd vítaspyrna á gestina sem gerðu sér lítið fyrir og brutu á lögreglumanninum Sigurði Bjarna. Dómarinn lét það ekki viðgangast og heimamenn 1-0 yfir í hálfleik. Á 58. mínútu jöfnuðu gestirnir metin, Bjarki Fannar Helgason átti þá skot af löngu færi sem fór af varnarmanni í markið. Hann bætti síðan við öðru marki á 76. mínútu og þar við sat.
Lið Húnvetninga er nú í fjórða neðsta sæti, því níunda, með 18 stig, KFG er með 16, KF með 12 stig og Reynir Sandgerði 11. Þegar sex umferðir eru óspilaðar er staða Kormáks/Hvatar nokkuð traust en næstu leikir eru mikilvægir; þá mæta þeir fyrst KFG í Garðabæ og fá svo lið Ægis úr Þorlákshöfn í heimsókn en þeir eru sem stendur í sætinu ofan við Húnvetninga. Koma svo!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.