Átján kindum bjargað úr afrétt

Hluti fjárins sem fannst við Stakkfellið á leið til byggða. Andrés í Tungu ekur beltahjóli og Birgir í Valagerði rekur lestina. Myndir: Kári Gunnarsson.
Hluti fjárins sem fannst við Stakkfellið á leið til byggða. Andrés í Tungu ekur beltahjóli og Birgir í Valagerði rekur lestina. Myndir: Kári Gunnarsson.

Síðastliðinn föstudag náði Andrés bóndi í Tungu í Gönguskörðum við annan mann að koma sautján kindum til byggða úr Vesturfjöllum sem voru, þrátt fyrir fannfergi og kulda, í ágætu ásigkomulagi. Nokkrum dögum áður hafði Andrés staðsett féð og náð að handsama eitt lamb og flutt með sér heim.

Það var sl. fimmtudag sem Andrés fór í fjallaleiðangur á beltahjóli sínu til að freista þess að mjaka fénu til byggða og náði hann, einn síns liðs, að koma fénu, sem hafðist við í vestanverðu Stakkfellinu til móts við Gvendarstaði, yfir í Kálfárdal. Á föstudaginn bættist honum liðsauki þegar Birgir Hauksson í Valagerði hjálpaði honum að koma fénu heim í Tungu.

„Þetta gekk í raun og veru bara vel. Þetta er þolinmæðisvinna á þessum tíma náttúrulega en ég var svo heppinn að það var þarna ein ær sem að fór vel á undan og fór í slóðina á hjólinu. Þetta tók bara tíma,“ útskýrir Andrés en hann segir ærnar hafa verið í mjög góðu ásigkomulagi enda nógur hagi þar sem þær höfðust við. „Það er mjög gott lag á þeim, það var ekki vandamálið. Það eina sem að var var að klakabrynja var komin í þær sem var til trafala og þurfti að skera úr til að létta á þeim, sérstaklega í einu lambi.“

Flestar kindurnar í hópnum voru úr Skagafirði en ein tvílembd er frá Bakkakoti í Austur-Húnavatnssýslu. Níu voru kindurnar úr Hegranesinu, sex frá Ríp og tvílemba frá Svanavatni, af Langholtinu var tvílemba frá Halldórsstöðum og lamb frá Glaumbæ og sjálfur átti Andrés tvær. „Þannig að þetta kemur úr sitt hverri áttinni segir Andrés sem fullyrðir að hann hefði ekki haft þetta nema vegna fararskjótans, fjórhjóls á beltum líkt og björgunarsveitir nota enda færið þungt. Þó segir hann ekki það mikinn snjó að komið væri sleðafæri til að fara að snúast um holt og hæðir í kringum féð.

Ekki frést af fleirum

Aðspurður um hvort fleira fé leynist í Vesturfjöllum segir Andrés ekki víst. „Ég veit ekki um neitt en það vantar enn og ekki fundist ennþá hvernig sem það er. Auðvitað vantar alltaf eitthvað sem aldrei kemur, getur farið ofan í eða orðið afvelta og alla vega. En þegar vantar samstæður, ær með lömbum, þá heldur maður frekar í vonina að það sé einhvers staðar og finnist.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir