Allt morandi í loðnu norður af Húnaflóa

Leiðarlínur Árna Friðrikssonar 12.-21. febrúar ásamt dreifingu hafíss norðvestan við Ísland. MYND AF VEF HAFRÓ
Leiðarlínur Árna Friðrikssonar 12.-21. febrúar ásamt dreifingu hafíss norðvestan við Ísland. MYND AF VEF HAFRÓ

Langt er liðið á loðnuvertíðina en Hafrannsóknarstofnun leitar enn að loðnu. Vegna hafíss hafði leit norðanvestan við landið í janúar verið takmörkuð en rannsóknarskipuð Árni Friðriksson sinnti þessum rannsóknum nú dagana 12.-21. febrúar. Það kom á óvart að umtalsvert magn af hrygningarloðnu mældist á landgrunni norður af Húnaflóa sem var ekki komið á mælisvæðið þegar fyrri rannsóknir fóru fram. Á vef stofnunarinnar í gær var sagt að búast mætti við í það minnsta 100 þúsund tonna aukningu í loðnukvóta.

„Loðnan sem mældist úti fyrir Húnaflóa var 3 – 4 ára loðna sem komin var tiltölulega nálægt hrygningu, með tæplega 16% hrognafyllingu syðst en tæp 12% utar. Það er mat Hafrannsóknastofnunar að þessi loðna muni líklegast hrygna á þessum slóðum. Út frá varúðarðarsjónarmiðum hvetur stofnunin til þess að afli sem nemur viðbótarráðgjöf verði veiddur sem mest á þeim slóðum. Með því að ganga ekki of nærri þeirri loðnu sem hrygnir við vestur- og suðurströnd landsins væri verið að leitast við að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika innan stofnsins og minnka möguleg neikvæð áhrif veiða á nýliðun. Með öðrum orðum, mælst er til þess að loðnuveiðarnar endurspegli á einhvern hátt dreifingu stofnsins eftir hrygningarsvæðum,“ segir í frétt á vef Hafró.

100 þúsund tonna aukning loðnukvóta gæti skilað tíu milljarða króna útflutningsverðmæti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir