30 ára vígsluafmæli Blönduóskirkju

Blönduóskirkja síðasta sumar. MYND: ÓAB
Blönduóskirkja síðasta sumar. MYND: ÓAB

Í tilefni af 30 ára vígsluafmæli Blönduóskirkju er öllum boðið til afmælishátíðar þann 30. apríl næstkomandi. Í tilkynningu á Facebook-síðu kirkjunnar er greint frá því að hátíðarmessa hefjist kl. 13:00 en þar mun sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup prédika, sr. Edda Hlíf Hlífarsdóttir þjónar fyrir altari og kirkjukór Blönduóskirkju leiðir safnaðarsöng við undirleik Eyþórs Franzsonar Wechner, organista. Sr. Magnús Magnússon og sr. Bryndís Valbjarnardóttir lesa ritningarlestra og meðhjálpari er Jón Aðalsteinn Sæbjörnsson.

Í beinu framhaldi af messunni verða tónleikar þar sem fram koma Kirkjukór Blönduóskirkju ásamt Nínu Hallgrímsdóttur, sem syngur einsöng, undir stjórn Eyþórs Franzsonar Wechner; Karlakór Bólstaðahlíðarhrepps, undir stjórn Skarphéðins H. Einarssonar; og Elvar Logi Friðriksson einsöngvari, við undirleik Eyþórs Franzsonar Wechner.

Að tónleiknum loknum verður boðið upp á kaffiveitingar í kirkjunni.

Arkitektinn þver og fastur fyrir

Í frétt í 16. tölublaði Feykis 1993 segir að nýja kirkjan á Blönduósi hafi verið vígð 1. maí að viðstöddu fjölmenni. Það var sr. Bolli Gústavsson vígslubiskup á Hólum sem vígði kirkjuna. „Löngum hefur form kirkjunnar verið umdeilt, enda fór arkitektinn Maggi Jónsson frá Kagaðarhóli ekki troðnar slóðir við hönnunina. Hann leitaði fyrirmyndar í náttúrunni og umhverfinu, og að eigin sögn var hann jafnan þver og fastur fyrir þegar heimamenn reyndu að fá því breytt sem hann lagði til, enda vildi hann enga feilnótu í sínu verki,“ segir í inngangi fréttar Feykis. Sjá frétt á Tímarit.is >

Blönduóskirkja er sannarlega bæjarsómi þar sem hún stendur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir