22 nemar þreyttu sveinspróf í húsasmíði um helgina
Það var mikið um að vera í Hátæknimenntasetri Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra um helgina þegar 22 nemar þreyttu sveinspróf í húsasmíði. Hófst það á föstudegi og stóð fram á sunnudag en fjóra dagana á undan var haldið námskeið fyrir þá sem vildu undirbúa sig fyrir átök helgarinnar.
Að sögn Óskars Más Atlasonar, deildarstjóra tréiðna, komu nemendur alls staðar að af landinu en margir hafa verið í helgarnámi skólans. Vegna góðrar þátttöku var vélasalur tréiðnagreina græjaður upp svo koma mætti öllum fyrir.
„Það var mjög góð aðsókn, margir í námi og vilja fá að taka prófið þar sem þeir læra. Til að halda próf þarf lágmarksfjölda en þau eru haldin á nokkrum stöðum á landinu, á sama tíma og nemendur vinna sama verkefnið,“ segir Óskar en í þetta skiptið fór prófið fram á þremur stöðum, í FNV, FB og í Tækniskólanum.
Óskar segir mikla aðsókn í helgarnámið en nú eru þrír 14 manna hópar í námi en um áramót fór nýr hópur af stað. Þá er dagskólinn það vel skipaður að skipta þurfti hópnum í tvennt sem ekki hefur þurft að gera áður en 17 sóttu um í grunnnámi. Hvort allir skili sér sem húsasmiðir á vinnumarkaði segir Óskar það misjafnt. Flestir geri það en einhverjir séu að bæta við sig þekkingu og tekur sem dæmi húsverði, fasteignasala og tæknifræðinga. Svo eru aðrir sem ætla að nota færnina til heimabrúks.
Víðir Pétursson, Laugum í Reykjadal, var einn þeirra sem þreyttu próf um helgina en hann hefur verið í helgarnámi hjá skólanum sl. tvö ár og er mjög ánægður. „Mér finnst frábær útfærsla á þessu að geta tekið þetta nám um helgar og sem hentar fullorðnum sem vilja ná sér í réttindi og eru að vinna við þetta.“ Víðir hefur unnið við smíði og ætlar að halda því áfram meðan honum þykir það skemmtilegt. „Annars fer ég að gera eitthvað annað,“ segir hann.
Stækkun verknámshúss væntanleg
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra,
og Ingileif oddsdóttir, skólameistari FNV, rita nöfn sín undir
viljayfirlýsingu um stækkun verknámshúss skólans. Myndir: PF
„Það er mjög sterkt fyrir okkur hér á Norðurlandi vestra að geta haldið sveinspróf hér. Það fer vika í þetta, fjögurra daga námskeið áður en sveinsprófið hefst sem tekur þrjá daga. Dæmi eru um að meistarar bendi nemendum sínum á þennan kost, að koma á námskeiðið þar sem þeir læra þá á vélar og aðstöðu og í kjölfarið í próf,“ segir Óskar en bendir á að þótt aðstaðan sé góð þá er skólinn kominn að þolmörkum hvað húsnæði varðar.
Mynd: Verkfræðistofan STOÐ á Sauðárkróki.
Auk tréiðnahópanna þriggja eru þrír hópar í rafiðn og einn í vélstjórn í helgarnámi. Að sögn Ingileifar Oddsdóttur, skólameistara, verður brátt farið í kennslu í plastiðn en vegna pláss- og aðstöðuleysis verður verklegi hluti námsins kenndur í Reykjavík en bóklegt rafrænt á Teams, sem er búnaður fyrir fjarvinnu á netinu. Á liðnu vori skrifaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Ingileif undir viljayfirlýsingu um stækkun verknámshúss skólans og var þar með langþráðum áfanga náð í þeirri vegferð að koma húsnæði iðngreina í viðunandi horf. Ingileif segir að hönnun hússins muni fara af stað á nýju ári og í kjölfarið byggt enda veiti ekki af.
Tengdar fréttir:
Viljayfirlýsing um stækkun verknámshúss FNV undirrituð
Stefnt að stækkun verknámshúss FNV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.