17. júní fagnað í dag
Í dag eru 79 ár frá stofnun lýðveldisins og af því tilefni eru hátíðarhöld um allt land. Ekki láta íbúar á Norðurlandi vestra deigan síga í þeim efnum en vegleg dagskrá er á Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga í tilefni dagsins. Feykir óskar Íslendingum nær og fjær til hamingju með daginn.
Á Hvammstanga hófst dagskráin með hátíðarmessu kl. 13 en kl. 14 fór skrúðganga frá kirkjunni að félagsheimilinu en þar hefst hátíðardagskrá hálftíma síðar. Síðan tekur við samverustund klukkan 15 þar sem margt verður til gamans gert.
Viðamikil dagskrá er í Húnabyggð en þar hófst hátíðin í gær. Dagskrána í heild má finna á vef Húnabyggðar en skrúðganga fer af stað frá félagsheimilinu á Blönduósi nú kl. 14:15 og hátíðardagskrá hefst 14:30 á skólalóð Húnaskóla.
Í Skagafirði verpyr hátíðar- og skemmtidagskrá á Sauðárkróki í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslands. Í ár verður dagskráin með breyttu sniði þar sem karnivalstemning mun ríkja á Árskólalóðinni, nánar tiltekið sunnan við íþróttahúsið á lóð Árskóla. Íbúar Skagafjarðar eru hvattir til að gera sér glaðan dag og mæta á Árskólalóðina kl. 14.
Þá má geta þess að götukörfuboltamót verður á vellinum við Árskóla nú kl. 15 og hópakstur fornbíla um Skagafjörð hefst kl. 16. Í Glaumbæ er hægt að komast í úrvalsbakkelsi en 17 sortir verða í boði í tilefni af 17. júní.
Veðrið leikur við íbúa á Norðurlandi vestra en hitinn er víðast hvar á bilinu 16 til 21 stig og því ekki nokkurt vit að hanga inni. Allir út að fagna þjóðhátíðardeginum!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.