Ýmist lamandi hiti eða svarta þoka :: Veður setur strik í smalamennsku

Einmuna blíða var á heiðum Norðanlands í síðustu viku svo rólega gekk að koma sauðfénu til byggða. Hér gengur Kristján Víðir Kristjánsson á eftir þremur kindum en hann segir féð hafa verið latrækt í hitanum. En í Stafnsrétt komust þær um síðir. Mynd: Giulia Weitz.
Einmuna blíða var á heiðum Norðanlands í síðustu viku svo rólega gekk að koma sauðfénu til byggða. Hér gengur Kristján Víðir Kristjánsson á eftir þremur kindum en hann segir féð hafa verið latrækt í hitanum. En í Stafnsrétt komust þær um síðir. Mynd: Giulia Weitz.

Um helgina fóru göngur og réttir víðast hvar fram á landinu og fara æði misjafnar fréttir af gangi mála sérstaklega á Norðurlandi. Sums staðar gekk allt eftir áætlunum en annars staðar hafði veður mikil áhrif og tafði framgöngu þeirra, þá einkum þoka sem umlék fjöll og dali um helgina eða sól og einmunablíða fyrir helgi.

Þannig háttaði til að vegna „óviðráðanlegra aðstæðna“, eins og tilkynnt var á heimasíðu Húnabyggðar, seinkaði réttum í Auðkúlurétt sl. laugardag. Að sögn Helga Páls Gíslasonar, fjallskilastjóra á Höllustöðum, var seinkunin tilkomin vegna of mikillar blíðu. „Þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag vorum við í 20 stiga hita og logni nánast og þetta var farið að snúast um það að ná hvíld á skepnur og menn. Þær voru uppgefnar og þetta gekk hægt,“ sagði Helgi þegar Feykir sló á þráðinn til hans. Hann segir þó að honum hafi ekki fundist ganga illa, það hafi bara ekki verið nógu margir birtutímar í deginum.

„Þetta var fyrst og fremst þessi gríðarlegi hiti í þetta marga daga. Maður hefur alveg fengið heitan dag en þetta snerist um þetta orðið. Við komum degi seinna, hvíldum féð eina nótt en vorum komin um hádegi daginn eftir niður í rétt.“

Á Auðkúluheiði er lagt af stað með smalahross á sunnudagsmorgni, komið í Hveravelli kvöldið eftir og byrjað að smala á þriðjudegi. Helgi segir að komið sé með safnið niður í rétt á föstudagskvöldi við ljósaskiptin en nú hafi verið brugðið á það ráð að hvíla féð yfir nótt. „Aldrei lent í þessu áður. Ég ætla nú ekki að bölva sumrinu en ég kann á hitt,“ segir hann og á þá við að ganga í kaldara veðri. „Þetta er alveg nýtt fyrir manni, heiðskírt og glampandi sól. Bara smá gola hefði bjargað miklu fyrir okkur en henni var bara ekki til að dreifa á heiðinni hjá okkur núna.“

Þetta kemur allt saman

Þær göngur sem taka bara einn dag fóru flestar fram á laugardeginum og snemma leit út fyrir að smalar fengju ágætis veður og skyggni til smölunar. En fljótlega eftir að flestir voru komnir á sínar göngur og farnir að hóa læddist þoka um dali og fjöll og skyggði útsýnið svo mjög að hvarvetna smalaðist illa eða hreinlega að hætt var við smalamennsku þann daginn.

„Það var svo tilgangslaust að fara. Það var svartaþoka,“ segir Steinn Rögnvaldsson á Hrauni, gangnastjóri á Út-Skaga, en þar var göngum frestað fram á mánudag. „Við fórum á föstudaginn innst á svæðið, Sandfellið og Hafragilsfjall og smöluðum fram eins og við höfum alltaf gert fyrir Húnvetninga og fengum fínt veður þá en svo var dimmt á laugardeginum. Bjarnarfellið er eftir en ég held að það verði farið í það á morgun, [í dag miðvikudag] ef það verður bjart. Þetta kemur allt saman en hún er búin að tefja okkur þokan, það er ekkert við því að gera,“ segir Steinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir