Öflugur landbúnaður er lykill að kröftugri byggð
Til að stuðla að farsæld og heilbrigðum vexti landbúnaðar og fæðutengdrar starfsemi þurfum við að hugsa fyrir framtíðinni í stærra samhengi en mér sýnist hafa verið gert hingað til. Opinber stuðningur skiptir augljóslega máli, en fleiri þurfa að leggja lóð sitt á vogaskálarnar.
Grunnur að fæðuöryggi
Landbúnaður og tengd fæðuframleiðsla leggja sem fyrr grunninn að fæðuöryggi landsmanna og háu atvinnustigi, auk þess að stuðla að viðhaldi byggðar í landinu. Hollusta og heilnæmi íslenskrar landbúnaðarvöru er óumdeild, en þar spila hrein íslensk náttúra og vatn stórt hlutverk. Takmörkuð notkun sýklalyfja skapar íslenskum landbúnaði einnig ákveðið forskot. Þessum staðreyndum þurfum við að vera miklu staðfastari í að halda á lofti. Núgildandi tollasamningar hafa skapað ójafnvægi á markaði þar sem innlend framleiðsla þarf að keppa við innflutning á vörum sem ekki sæta sömu kröfum og gerðar eru hér á landi. Þess vegna er mikilvægt að þessir samningar verði endurskoðaðir og tollvernd aukin. Koma þarf á betra eftirliti með innflutningi og setja skýrari kröfur um upprunamerkingu matvæla. Þá er rétt að vísa til þingsályktunartillögu Miðflokksins um „stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar“ sem lögð hefur verið fram ítrekað á undanförnum þingum. Aukinni eftirspurn eftir matvælum á að mæta með aukinni innlendri matvælaframleiðslu, en ekki auknum innflutningi. Miðflokkurinn hefur ávallt lagt ríka áherslu á mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og þau stóru tækifæri þjóðarinnar til framtíðar sem felast í heilnæmi matvæla, fæðuöryggi og vaxandi möguleikum til nýtingar vistvænnar orku og nýrri tækni til matvælaframleiðslu.
Rannsóknir, tækni og nýsköpun
Landbúnaður á Íslandi, líkt og raunar í öðrum vestrænum ríkjum, krefst ákveðinnar fyrirgreiðslu og stuðnings opinberra aðila. Mikilvægt er að hluti stuðningsaðgerða þjóni ætíð því markmiði að gera landbúnaðinn og tengda fæðuframleiðslu samkeppnishæfari á markaði. Í því skyni skiptir máli m.a. að stutt sé við rannsóknir, vísindastarf, tækni og nýsköpun. Slíkur stuðningur getur greitt sjálfstæðum frumkvöðlum leið inn á markað bæði heima og erlendis, líkt og dæmi eru um í öðrum atvinnugreinum. Það er nauðsynlegt að stuðla að frjóum jarðvegi fyrir nýsköpun í landbúnaði og allri fæðutengdri starfsemi. Búvörusamningar eru eitt þeirra tækja sem mögulega væri hægt að nýta í þessu augnamiði, m.a. með því að beina hluta opinberra fjármuna til nýsköpunarverkefna í gegnum samningana.
Það er nefnilega þannig að fæðutengd starfsemi og landbúnaður spanna á okkar dögum mun víðfeðmara svið en lengi var raunin. Virðiskeðjan heldur áfram að stækka. Til að virkja hana betur með hagsmuni bæði framleiðenda og neytenda í huga er nauðsynlegt að leiða saman aðila sem reynslu hafa af greininni með frumkvöðlum, fyrirtækjum, fjárfestum, rannsóknar- og vísindastofnunum og öðrum viðeigandi aðilum. Þannig m.a. aukum við verðmætasköpun og stuðlum að byggðafestu.
Með því að nýta tækifærin sem fólgin eru m.a. í aukinni sjálfvirkni, betri ræktunaraðferðum, fullvinnslu afurða, nýsköpun á sviði líftækni og hátækniframleiðslu, samvinnu á milli greina og greiðara samtali við neytendur og markað, gerum við greininni betur kleift að standast bæði innlendar og alþjóðlegar kröfur.
Tryggjum nýliðun
Eitt það mikilvægasta sem verður að tryggja, er að auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti innan bændastéttarinnar. Þar verður að búa þannig um hnúta að hvatar og fjármögnunarleiðir séu fyrir hendi sem virka. Þannig tryggjum við byggð á bújörðum, aukna innlenda matvælaframleiðslu og þar með fæðuöryggi í okkar fallega heilnæma landi.
Það er ekkert nýtt að landbúnaður og tengd starfsemi þurfi að takast á við krefjandi aðstæður. Á tímum hraðvaxandi tækni og framfara eru hins vegar möguleikar greinarinnar á að feta sig inn á nýjar brautir í framleiðslu og verðmætasköpun e.t.v. betri en þeir hafa nokkru sinni verið.
Öflugur landbúnaður og sú víðfema starfsemi sem honum tengist, er lykill að kröftugri byggð.
Höfundur: Ingibjörg Davíðsdóttir, oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.