Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga 2022
Eftir rúm tvö ár í undarlegum aðstæðum sem sköpuðust vegna áhrifa kórónuveirunnar, sem á einhvern undarlegan hátt ákvað að herja á mannkynið með Covid-19, stefna Skagfirðingar ótrauðir á að halda alvöru Sæluviku með glaum og gleði sem aldrei fyrr. Þar sem er Sæluvika þar er Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga.
Samkvæmt óvísindalegri rannsóknarvinnu er komið að 45. keppninni en henni var komið á árið 1976 og hefur farið fram öll árin síðan, utan 2020, út af svolitlu heimsfári sem riðlaði öllu. Það er alkunna að veðurminni Íslendinga er stutt og það á líka við um fleiri þætti mannlífsins. Óvíst er hvort nokkur muni hvernig Sæluvikunni var háttað í fyrra eða hvort hún var yfir höfuð haldin árið þar áður. Flestum er líka nokk sama því Covidið er að mestu liðið hjá og engar hömlur frá yfirvaldinu lengur. Man einhver eftir því að nú er rétt eitt ár liðið síðan eldgos hófst við Fagradalsfjall í Geldingadölum og hraun tók að flæða úr Meradölum?
En allir muna hvernig kosningarnar fóru fyrir fjórum árum, eða er ekki svo? Og nú styttist í að sögulegar sveitarstjórnarkosningar verði haldnar þar sem Skagfirðingar verða sameinaðir í einu sveitarfélagi. Er ekki komið nægur eldiviður í vísur eftir þessa upptalningu.
Reglur vísnakeppninnar eru sem fyrr einfaldar og góðar; annars vegar að botna fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni. Ekki er nauðsynlegt að botna allt og einnig er í lagi að senda bara inn vísu.
Fyrripartarnir að þessu sinni hljóða svo:
Enginn tregar einangrun
eftir Covid fárið.
Merlar ekki mosabreið
í Meradölum lengur.
Ungum þykir eflaust góð
augnablik í leynum.
Röðull skín á Skagafjörð
skaparinn er kátur.
Fyrir skömmu lést heiðursborgarinn og kaupmaðurinn Bjarni Haraldsson á Sauðárkróki, bæjarstjórinn í útbænum eins og einhver kallaði hann, en hann var hvers manns hugljúfi og þekktur út um allan heim. Umsjónarmaður vísnakeppninnar langar til að sjá skemmtilegar vísur um Bjarna og hvað hagyrðingum dettur í hug að yrkja til þessa sómamanns. Vísur um annað viðfangsefni er einnig leyfilegt.
Veitt verða tvenn peningaverðlaun, annars vegar fyrir bestu vísuna og hins vegar fyrir besta botninn. Ekki er skilyrði að allir fyrripartar séu botnaðir og einnig er leyfilegt að senda einungis vísu.
Vísur og botnar verða að hafa borist Safnahúsi Skagfirðinga, Faxatorgi 550 Sauðárkróki í síðasta lagi miðvikudaginn 20. apríl nk. Nauðsynlegt er að vísurnar séu merktar dunefni, en rétt nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi. Einnig er hægt að senda vísur og botna í tölvupósti á netfangið bokasafn@skagafjordur.is og verður þá viðkomandi höfundi gefið dulnefni, ef það fylgir ekki með, áður en vísunar fara til dómnefndar.
Úrslit verða tilkynnt sunnudaginn 24. apríl, við setningu Sæluviku Skagfirðinga, í Safnahúsinu á Sauðárkróki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.