Vilja reisa gróðrarstöð í Húnaþingi vestra sem framleitt getur 15 milljón plöntur árlega
Á vef KVH (Kaupfélags Vestur-Húnvetninga) er sagt frá því að síðastliðið ár hafi félagið verið þátttakandi í verkefni sem nefnist Skógarplöntur en það snýst um að koma á fót gróðrarstöð sem framleiðir trjáplöntur til gróðursetningar. Fjölmargir aðilar komið að verkefninu en þeir sem hafa drifið það áfram eru Magnús Barðdal frá SSNV, Björn Líndal Traustason frá KVH, Hafberg Þórisson garðyrkjumaður og eigandi Lambhaga og Skúli Húnn Hilmarsson eigandi Káraborgar ehf.
Þar kemur fram að hugmyndin er að reisa gróðrarstöð sem getur framleitt allt að 15 milljónir plantna árlega en í dag eru framleiddar á Íslandi 6-7 milljónir plantna árlega. Áætlað er að þörfin sé 20-25 milljónir plantna á næstu árum.
Svo hægt sé að vinna verkefnið áfram þarf að finna fjárfesta sem hafa trú á því en gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við uppbyggingu gróðrarstöðvarinnar verði í kringum þrír milljarðar króna. Verkefnið var kynnt fyrir fjárfestum á fjárfestahátíð á Siglufirði í mars og gekk vel. Tengsl við nokkra aðila voru mynduð sem gætu aðstoðað með framhaldið en um er að ræða bæði fjárfesta og aðila sem vinna beint við að koma nýjum verkefnum á framkvæmdastig.
„Enginn veit með vissu hvort stöðin rísi í héraðinu á næstu misserum, en við sem komum að því höfum fulla trú að það sé góður rekstrargrundvöllur til staðar og þörf sé fyrir framleiðslu stöðvarinnar á markaðnum. Alls konar þættir geta spilað inn í það hvort takist að fá fjárfesta að verkefninu og ekkert í hendi með það. Við sem höfum unnið að þessu síðastliðið ár höfum fulla trú að því að það takist að koma þessari gróðrarstöð á laggirnar og munum vinna hörðum höndum að því að svo verði,“ segir á vef KVH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.