Veggjöld eða kílómetragjald :: Leiðari Feykis
Sífellt er verið að leysa hin margvíslegu vandamál og finna hentugustu leiðirnar að einhverju ákveðnu marki. Stundum skapast nýtt vandamál þegar annað hefur verið leyst og lúxusvandamálin eru víða.
Það má til dæmis velta fyrir sér hvaða framkvæmd ætti að fá forgang á samgönguáætlun, tvöföldun Vesturlandsvegar að Hvalfjarðargöngum, tvöföldun Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar að Selfossi, tvöföldun Hvalfjarðarganga, ný brú yfir Ölfusá eða uppbygging þjóðvegar um Vatnsnes.
Uppi hafa verið vangaveltur um veggjöld og hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, ekki útilokað að vegtollar verði settir á einstaka vegi í framtíðinni auk gjalds í hver göng landsins. Þetta leggst misvel í fólk en einhvern veginn verður að fjármagna framkvæmdir.
Bent hefur verið á að með fjölgun rafmagnsbíla minnki fjárstreymi í formi eldsneytisskatts til ríkisins sem aftur útdeilir framkvæmdafé til vegamála. Í reglugerð um vörugjöld af eldsneyti segir í 1. gr. að greiða skuli í ríkissjóð 90% vörugjald af bensíni og í 3. gr. er kveðið á um sérstakt vörugjald af bensíni. Þá skal greiða sérstakt vörugjald - bensíngjald - af bensíni. Af blýlausu bensíni, skal greiða gjald sem nemur 22,40 kr. af hverjum lítra. Af öðru bensíni skal greiða gjald sem nemur 23,80 kr. af hverjum lítra.
Þarna þarf að ná krónum af rafbílaeigendum til jafns við aðra vegnotendur. En hvernig það er útfært þurfa stjórnmálamenn að koma sér saman um og það til framtíðar. Ekki má tjalda til einnar nætur eða láta samfélagsumræðuna hræða sig til óskynsamlegrar niðurstöðu.
Í riti Vegagerðarinnar frá árinu 2006, Fjármunir Vegagerðarinnar, segir að það ráðist af innheimtu þungaskatts, bensín- og olíugjalds og öðrum framlögum úr ríkissjóði hvaða fjármuni Vegagerðin hafi til ráðstöfunar. Árið 2005 var heildarfjárveiting sem Vegagerðin hafði til ráðstöfunar rúmlega 13,4 milljarðar króna en það ár voru heildartekjur ríkisins af umferðinni 47 milljarðar króna.
Þarna munar 33,6 milljörðum og munar um minna. Hvað hefði verið hægt að gera við mismuninn þetta árið? Byggja upp Vatnsnesveg, sem nú er loksins kominn á tíu ára framkvæmdaáætlun? Eins og sést í frétt hér á síðunni er alla vega ljóst að sá vegur er engum bjóðandi í nútíma samfélagi.
Góðar stundir
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.