Tveimur verkefnum frá Norðurlandi vestra úthlutað styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís

Mynd tekin af ssnv.is
Mynd tekin af ssnv.is

Tækniþróunarsjóður Rannís fyrir árið 2024 úthlutaði styrkjum nýverið og voru tvö verkefni frá Norðurlandi vestra sem fengu styrk, ALOR sólarorkulausnir og María Eymundsdóttir fyrir ræktun burnirótar með aeroponic. Alls bárust 343 umsóknir í sjóðinn og var styrkveiting til nýrra verkefna 781 milljón króna en þar sem verkefnin eru til allt að þriggja ára nemur heildarkostnaður vegna þeirra 1.476 milljónum króna.

ALOR sérhæfir sig í hagkvæmum lausnum í sólarorkunýtingu og geymslu hennar, verkefnastjóri Alor er Linda Fanney Valgeirsdóttir. Í verkefninu nýtir Alor sérfræðiþekkingu sína á sviði geymslu rafmagns með því að innleiða svokallaðar sólarorkulausnir sem samanstanda af sólarpanelum og rafhlöðum. Með slíkum lausnum verður unnt að aðstoða fyrirtæki og stofnanir og síðar almenning við að efla orkusjálfstæði sitt, draga úr álagi á raforkukerfið og minnka olíunotkun. Verkefnið stuðlar að enn frekari þekkingaryfirfærslu til Íslands á tækni sem hefur um árabil verið notuð um allan heim með góðum árangri sem verður aðlöguð að íslenskum aðstæðum.

María Eymundsdóttir og eiginmaður hennar Pálmi Jónsson hafa stundað ræktun á burnirót í Skagafirði. Burnirót nýtur mikilla vinsælda sem heilsujurt en rótin er fjölær rótarmikill þykkblöðungur. Verkefnið snýst um ræktun burnirótar í aeroponic loftræktarkerfi til að stytta vaxtatíma hennar og kanna hvort að hægt sé að rækta hana eingöngu í aeroponic til að auðvelda og flýta fyrir ræktun og uppskeru á henni.

Virkilega framsækin og spennandi verkefni og er vert að fylgjast vel með framtíðar framgangi þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir