Tónleikar Jólahúna með kærleika og samstöðu að leiðarljósi
Undirbúningur er í fullum gangi fyrir Jólahúna-tónleika þetta árið sem verða í Félagsheimilinu á Hvammstanga föstudagskvöldið 16. desember kl. 20:00 og í Blönduóskirkju sunnudaginn 18. desember kl. 17:00. „Um 60 manns koma að Jólahúnum þetta árið og eigum við von á frábærum tónleikum á báðum stöðum,“ sagði Elvar Logi Friðriksson, einn forsprakka Jólahúna, þegar Feykir leitaði frétta.
„Þetta er annað árið sem við Kristinn Rúnar Víglundsson berum ábyrgð á Jólahúnum en nú nýverið hefur Guðrún Eik Skúladóttir bæst í stjórn Jólahún. Hún er einmitt dóttir Skúla heitins Einarssonar sem var hugmyndarsmiður Jólahúna frá upphafi og dreif þetta verkefni áfram með kærleika og samstöðu að leiðarljósi. Við Kiddi tókum við keflinu og héldum áfram að þróa þetta og í dag eru þetta alveg aðskildir tónleikar á Hvammstanga og Blönduósi,“ sagði Elvar Logi.
Fjöldi listafólks hefur upp raust sína þetta árið en á Blönduósi koma fram Arna Rún, Árný Björk, Elvar Logi, Gunnhildur Gísla, Helga Margrét, Helgi Páls, Inga Rós, Kristín Una, Ólafur Freyr, Ragnheiður Petra, Sóley Sif og að sjálfsögðu þéttskipuð hljómsveit Jólahúna. Annað sett söngvara brýnir raustina í félagsheimilinu á Hvammstanga. Þar koma fram þau Jóhann Smári, Baldvin Freyr, Ásdís Aþena, Katharina K, Hrund Jóhanns, Ragnheiður Petra, Guðmundur M, Alexandra Rut og Sigurdís systir hennar og Astríður Halla.
Hann segir vilja hafa staðið til þess að sem flestir fengju tækifæri til að koma fram og láta gott af sér leiða þar sem verið er að safna til góðerðarmála. Í fyrra söfnuðu Jólahúnar einni milljón og gáfu. Frá tónleikunum í ár á Hvammstanga rennur ágóði til Velferðarsjóðs Vestur-Húnavatnssýslu og á Blönduósi rennur ágóði til Orgelsjóðs Blönduóskirku.
Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 3.000 og er miðasala á Tix.is. Fjölmennum á Jólahúna með kærleika og samstöðu að leiðarljósi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.