Sumarleikhús æskunnar kynnir Makbeð eftir William Shakespeare

Sumarleikhús æskunnar er árlegt æskulýðsleikhús, nú haldið í fjórða sinn, í Húnaþingi vestra. En í ár eru börn úr Húnavatnssýslum að setja upp metnaðarfulla uppsetningu á Makbeð eftir sjálfan Shakespeare á aðeins 12 æfingadögum. Leikstjóri er Sigurður Líndal.

Fram kemur ungt hæfileikafólk, á aldrinum 7 - 16 ára, úr landshlutanum sem hafa tekið að sér að leika, hanna búninga og leikmynd sýningarinnar.

"Ég er að taka þátt í Sumarleikhúsi æskunnar í fjórða skipti" segir Emelia Íris sem fyrst tók þátt þegar hún var 9 ára gömul. "Mér finnst skemmtilegast að eignast nýja vini og vinna saman að einhverju sem er mikil áskorun. Við fáum að gera erfið leikrit. Mér finnst gaman að leika og þetta er mjög skemmtilegt." Rakel Alva, 13, bætir við "Fyrsta árið mitt settum við upp Jónsmessunæturdraum, sem er líka eftir Shakespeare, og það var skemmtilegt. Við gerðum það vel. Þannig að ég veit að við getum þetta. Mér finnst gaman að vera með vinum mínum í leikhúsinu. Það er erfitt en skemmtilegt."

Nornir, sturlun, blóð, draugar, afhausanir; Makbeð er hryllingssaga, á því er enginn vafi. Harkalegar gjörðir hafa harkalegar afleiðingar. Þegar þrjár nornir spá því að Makbeð verði kóngur, snýst hann gegn eigin eðli til að ráða örlögum sínum. Metnaðurinn leysist upp í lifandi martröð í heimi þar sem mörkin eru örþunn - milli þess jarðbundna og yfirskilvitslega, ástar og haturs, gleði og örvæntingar.

Sigurður Líndal, leikstjóri sýningarinnar, segir „Það er alltaf áskorun fyrir leikara að takast á við höfuðvirki heimsbókmenntanna, hvað þá fyrir börn sem eru að feta sín fyrstu spor á leiklistarbrautinni. Það er samt líka nauðsynlegt að gera atlögu að ófærunni, láta reyna á sig til botns og finna krók hjá keldu. Ungir leikarar ná mestum framförum með því að takast á við krefjandi viðfangsefni, auk þess sem það er þeim nauðsynlegt að fá að afhelga sígildu verkin - setja þau ekki á stall heldur líta á Shakespeare sem samtíðarmann sinn. Þetta hefur verið afar skemmtilegt og strembið - við vonum að áhorfendur njóti þess að sjá okkar unga leikhóp takast á við þetta forna verk á nýstárlegan hátt.

Sumarleikhúsið er hluti af Listaklasa æskunnar sem Handbendi stendur fyrir. Sumarleikhúsið er stutt af Húnaþingi vestra, og Eldi í Húnaþingi.

Sýningar:

  1. júlí kl. 19:00
  2. júlí kl. 14:00 & 19:30

Miðapantanir hja Eldur í Húnaþingi eða í sími 611 - 4698

 

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir