Sturluhátíðin í Dölum verður haldin 13. júlí

Frá Sturluhátíð 2023. MYND AÐSEND
Frá Sturluhátíð 2023. MYND AÐSEND

Nú fer að styttast í árlegan viðburð. Sturlufélagið heldur árlega Sturluhátíð laugardaginn 13. júlí nk. Hátíðin er kennd er við sagnaritarann mikla Sturlu Þórðarson, sem bjó að Staðarhóli í Dölum. Hátíðin hefst við Staðarhól, Saurbæ í Dölum, með afhjúpun söguskilta sem Sturlufélagið hefur látið útbúa og gefa innsýn í sögu sagnaritarans, Staðarhóls og héraðsins. Að því loknu förum við í sögugöngu með leiðsögn um Staðarhól. Að lokinni þessari dagskrá á Staðarhóli verður haldið að Laugum í Sælingsdal, þar sem dagskráin heldur áfram og verða bornar fram kaffiveitingar, í boði Sturlufélagsins, að gildum og góðum íslenskum sið.

Hátíðirnar undanfarin ár hafa verið afar fjölsóttar og nægir að geta þess að í fyrra komu ríflega 200 manns á Sturluhátíðina sem þá var meðlíku sniði og verður nú.

Dagskrá:
Kl. 13: Staðarhóll, Saurbæ í Dölum. Afhjúpun söguskilta og Söguganga á Staðarhóli.
Kl. 15: Sturluhátíð að Hótel Laugum í Sælingsdal.

Ræður flytja:
Einar K. Guðfinnsson formaður Sturlufélagsins, setur hátíðina.

Guðrún Nordal Forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:
Konurnar í Sælingsdalstungu: Laxdæla og Íslendingasaga Sturlu.

Sverrir Jakobsson, deildarforseti og prófessor við Háskóla Íslands:
Minni og vald. Sagnaritun Staðarhólsmanna í breiðfirsku samhengi.

Óttar Guðmundsson, geðlæknir. Snorri Sturluson, erfiði frændinn.

Tómas R. Einarsson bassaleikari ásamt Ómari Guðjónssyni gítarleikara flytja tónlist. Sömuleiðis mun Tómas, sem er uppalinn á Laugum, lesa kafla úr ný útkominni endurminningabók sinni, Gangandi bassi. Aðgangur að hátíðinni er ókeypis og eru allir velkomnir. Sturlufélagið býður upp á kaffiveitingar að hætti heimamanna.

/fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir