Stöndum öll með Blönduósingum
Harmleikurinn á Blönduósi í morgun lætur engan ósnortinn og ljóst að hugur landsmanna er með íbúum svæðisins. Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar, ávarpaði fjölmiðla nú síðdegis á Blönduósi og las upp yfirlýsingu frá sveitarstjórn og sveitarstjóra. Bað hann þjóðina að standa með íbúum svæðisins á þessum erfiðu tímum.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
Við í sveitarstjórninni viljum gefa út opinbera tilkynningu vegna þess voveiflega atburðar sem gerðist á Blönduósi að morgni sunnudags 21. ágúst. Við munum að svo stöddu ekki gefa kost á okkur í opin viðtöl en ég mun hér með lesa sameiginlega yfirlýsingu fyrir hönd allra í samfélaginu.
Íbúar svæðisins eru harmi slegnir og við erum ennþá að vinna úr því að þetta hafi raunverulega gerst.
Hugur allra íbúa Húnabyggðar er hjá þeim látnu, hlutaðeigandi og aðstandendum þeirra sem tengjast þessum hræðilega atburði. Samfélagið er í einhvers konar áfalli og allir eru að reyna ná utan um þessa atburði og þær tilfinningar sem þeim fylgja. Í litlu samfélagi eins og okkar eru allir kunningjar, vinir og/eða ættingjar og atburður sem þessi ristir samfélagið djúpt.
Lokaður upplýsingafundur lögreglunnar og annarra viðbragðsaðila fyrir íbúa svæðisins verður haldinn í Félagsheimilinu á Blönduósi klukkan 20. Að þeim fundi loknum verður boðið upp á sálrænan stuðning og samveru i Blönduóskirkju.
Sveitarstjórn beinir þeirri ósk til fjölmiðla að sýna því skilning að samfélagið er í sárum og þarf svigrúm til að vinna með þær sterku tilfinningar sem fylgja svona áfalli. Rétt er að árétta að allar tæknilegar upplýsingar um málsatvik eru á borði lögreglunnar sem sér um upplýsingagjöf vegna málsins.
Við biðlum til landsmanna allra að standa með okkur á þessum erfiðu tímum, við erum brotin og þiggjum alla þá góðu strauma sem þið getið veitt okkur. Eins óskum við þess að þið hugsið vel til þeirra sem þessum atburði tengjast. Það eru dökk ský yfir okkur núna en með ykkar hjálp komust við í gegnum þetta saman.
Við leggjum áherslu á við alla sem eiga um sárt að binda a Rauði krossinn á Íslandi sinnir fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi og sími þeirra 1717 er opinn allan sólarhringinn.
Með vinsemd og virðingu,
sveitarstjórn og sveitarstjóri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.