Stjórn SSNV gerir athugasemdir við frumvarp til laga um sýslumann

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa sent umsögn um drög að frumvarpi til laga um sýslumann í samráðsgátt stjórnvalda. Drögin voru birt 13. júlí en frestur til umsagnar er til 15. ágúst. Í umsögninni kemur fram að ekki hafi verið brugðist við áðursendum áhyggjum eða athugasemdum samtakanna sem settar voru fram á fyrri stigum.

Rakið er í umsögninni að á fundi stjórnar SSNV 5. apríl hafi verið brugðist við bréfi dómsmálaráðherra frá 27. mars, vegna fyrirhugaðrar endurskipulagningar sýslumannsembætta, með bókun þar sem lýst var yfir áhyggjum af fyrirhugaðri breytingu og það harmað að ekki hafi verið viðhaft samráð við sveitarfélög í undirbúningi hennar. Í framhaldinu átti hluti stjórnar fund með dómsmálaráðherra um málið þar sem áhyggjur voru reifaðar. „Nú þegar drög að frumvarpi hafa verið lögð fram er ekki að sjá að þeim athugasemdum og áhyggjum sem settar voru fram á fyrri stigum hafi verið mætt. Af hálfu ráðherra hefur verið staðhæft að eitt markmiða breytingarinnar sé að efla starfsstöðvarnar á landsbyggðinni en í frumvarpstextanum eru engar tryggingar fyrir því að svo verði gert eða að nauðsynlegar valdheimildir sýslumana verði til staðar. Þvert á móti eru lýsingar á starfsemi embættanna á landsbyggðinni miðaðar við lágmarksþjónustu en ekkert sagt fyrir um þróun hennar eða eflingu,“ segir í umsögn SSNV.

SSNV tekur svo undir umsögn byggðarráðs Skagafjarðar um málið en það telur varhugavert að fækka embættum sýslumanna þar sem sporin hræði í þeim efnum að þegar stjórnsýslueiningar missi ákveðið sjálfstæði hafi slíkt oftar en ekki leitt til þess að umfang starfsstöðva þeirra hafi minnkað í kjölfarið eða þeim verið lokað með tilheyrandi skerðingu á nærþjónustu. Nægi þar að nefna starfsemi svæðisstöðva Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni, starfsemi Vegagerðarinnar, RARIK og fleiri. Byggðarráð Skagafjarðar leggur því áherslu á að frumvarpið verði ekki lögfest án þess að samhliða verði fest í lög þau verkefni og umsvif sem starfsstöðvum sýslumanns er ætlað að sinna.

Þá nefnir SSNV í umsögn sinni að engar rekstrartölur eða áætlanir til langs tíma liggi fyrir eins og krafa sé gerð um samkvæmt lögum. Sökum þess mun við gildistöku laganna að óbreyttu ekki vera unnt að bjóða núverandi starfsfólki störf nema til skamms tíma miðað við fjárheimildir ársins 2024. Við það skapist óviðunandi óvissa fyrir starfsfólk. Stjórn SSNV leggur því áherslu á að frumvarpið nái ekki fram að ganga nema gerðar verði á því breytingar og eru þær reifaðar í umsögninni.

Að lokum er það nefnt í umsögninni að nóg pláss sé á Blönduósi fyrir sýslumann. Ríkið hafi samþykkt nýverið að kaupa viðbótarhúsnæði í því húsi sem hýsi núverandi skrifstofu sýslumannsins á Norðurlandi vestra á Blönduósi. Nægt rými sé þar til að hýsa nýtt embætti nái frumvarpið, með breytingum, fram að ganga.

Umsögn stjórnar SSNV má lesa hér.

/huni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir