Sjónlag opnar fjarlækningastöð á Akureyri
Augnlækningastöðin Sjónlag í Reykjavík opnaði í síðustu viku fjarlækningastöð í húsakynnum Læknastofa Akureyrar á Glerártorgi. Í frétt á Akureyri.net segir að ekki sé um hefðbundna augnlæknastofu að ræða heldur verði þar að mestu fylgst með fólki með ákveðna sjúkdóma eftir tilvísun frá augnlæknum. Augu sjúklinga verða mynduð á stöðinni og lesið úr myndunum í Reykjavík. Þetta ætti að draga úr kostnaði sjúklinga og samfélagsins og spara sjúklingum hér nyrðra tíma og fyrirhöfn.
Augnlæknar heimsóttu HSN á Sauðárkróki reglulega hér áður fyrr en eftir að Ólafur R. Guðmundsson lagði læknatöskuna á hilluna þá hefur sú þjónusta ekki verið í boði. Þeir sem þurfa á augnlæknum að halda þurfa því að leita norður á Akureyri eða oftar en ekki á höfuðborgarsvæðið.
Akureyri.net hefur eftir Ólafi Má Björnssyni, augnlækni hjá Sjónlagi, að mikið sé um að fólk utan af landi komi í reglulegt eftirlit hjá augnlæknum á höfuðborgarsvæðinu. „Með þessum hætti er hægt að spara fólki sporin, ekki síst hér á Akureyri þar sem bara einn augnlæknir er með ansi stórt svæði og við teljum okkur því geta létt undir með því að koma þessum tækjum fyrir hérna,“ segir Ólafur og bætir við að ferðakostnaður fólks úti á landi, sem ríkið endurgreiðir, hlaupi á tugum ef ekki hundruðum milljóna á ári,
Það segir þó fjarri því alla söguna því kostnaðurinn er mun meiri en það sem ríkið greiðir til baka. „Stór hluti af þessu fólki er aldraður og það getur verið stórmál að fara suður, fólkið þarf jafnvel aðstandanda til að fara með sér sem hefur aukinn kostnað í för með sér vegna ferðalagsins og vinnutaps,“ segir Jóhann Ragnar Guðmundsson, kollegi Ólafs hjá Sjónlagi.
Þeir Sjónlagsfélagar leggja áherslu á að starfsstöðin á Akureyri sé ekki venjuleg augnlæknastofa þar sem fólk geti pantað sér tíma til að fara í sjónmælingu eða gangi út með resept fyrir gleraugum. „Það má segja að hér sé hluti af okkar vinnu tekinn út fyrir sviga; eftirlit með ákveðnum þekktum augnsjúkdómum, sykursýki, kölkun í augnbotnum og gláku, svo ég nefni dæmi,“ sagði Ólafur Már. Ekki er að efa að Norðlendingar taki þessari auknu þjónustu fagnandi.
Sjá nánar í frétt á Akureyri.net >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.