Samkomutakmarkanir vegna Covid taka gildi á miðnætti

Staðan í dag. MYND AF COVID.IS
Staðan í dag. MYND AF COVID.IS

Það fór eins og reiknað var með að ríkisstjórnin ákvað að grípa til aðgerða vegna mikillar fjölgunar Covid-smita síðustu daga. Megininntak aðgerðanna er í takt við tillögur sóttvarnalæknis og líkt og óttast var eru samkomutakmarkanir meginefni aðgerðanna; hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman verður 200 og nálægðarregla tekin upp þegar nýjar reglur um takmarkanir á samkomum taka gildi. Reglurnar taka gildi á miðnætti sunnudaginn 25. júlí – eftir tíu klukkustundir.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir: „Mikilvægt er talið að grípa eins fljótt og auðið er til takmarkana innanlands til að koma böndum á aukna útbreiðslu smita. Með mikilli útbreiðslu og smiti hjá viðkvæmum hópum er hætt við alvarlegum afleiðingum. Í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis er þegar hafinn undirbúningur að því að bjóða þeim sem bólusettir hafa verið með bóluefni Janssen seinni bólusetningu í ágúst. Einnig verður einstaklingum með undirliggjandi ónæmisvandamál og þeim sem talið er að tveir skammtar veiti ekki nægilega góða vörn gegn COVID-19 boðinn þriðji skammtur bóluefnis.“

Samkomutakmarkanirnar taka gildi 25. júlí og gilda til og með 13. ágúst og nú er nauðsynlegt að fólk taki ástandið alvarlega og passi upp á sig og sína.

95 smit innanlands í gær – fjórir í einangrun á Norðurlandi vestra

Í gær greindust 95 smit innanlands, 75 utan sóttkvíar og af þessum 95 höfðu 62 verið bólusettir. Haft er eftir Þórólf­i Guðnasyni, sóttvarnarlækni, í frétt á mbl.is að það stefni í metfjölda smita. Hann seg­ir að smit­in teng­ist ekki leng­ur ein­ung­is skemmtana­líf­inu.„Þetta er orðið miklu út­breidd­ara en svo. Þetta byrj­ar með út­breiðslu á stöðum þar sem út­breiðslan er mjög mik­il. Það er til dæm­is á skemmtistöðum og þar sem fólk er að hóp­ast sam­an, er í mik­illi nánd og pass­ar sig ekki og er mis­mun­andi vel áttað. Síðan breiðist þetta inn í fjöl­skyld­ur, vina­hópa og fyr­ir­tæki. Vissu­lega eykst út­breiðslan við hvert stóra par­tíið.“

Samkvæmt frétt mbl.is voru ríflega 4500 sýni tekin í gær og hlutfall jákvæðra sýna var um 3%. Hér á Norðurlandi vestra fjölgaði smituðum úr einum í fjóra og nú eru tíu manns í sóttkví. Smit eru á uppleið í öllum landshlutum en nú eru 463 í einangrun á landinu, 1266 í sóttkví og 1104 í skimunarsóttkví.

Þau voru því þung skrefin hjá mörgum hátíðahöldurum í gær þegar tilkynna þurfti að aflýsa þyrfti m.a. Unglingalandsmótinu á Selfossi og Þjóðhátíð í Eyjum. Allt útlit er fyrir að Bræðslan á Borgarfirði eystri fari fram en tónleikunum hefur þó verið flýtt þannig að öruggt sé að allt verði yfirstaðið fyrir miðnætti. Í Húnaþingi vestra hefur hátíðin Eldur í Húnaþingi staðið yfir frá því í byrjun vikunnar. Stóra ballið er þó eftir og hefur dansleikurinn með Stuðlabandinu verið færður fram og hefst kl. 20:00 í kvöld.

Annars eru helstu takmarkanir stjórnvalda þessar:

  • Almennar fjöldatakmarkanir verða 200 manns. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin.
  • Nándarregla verður almennt 1 metri. Börn fædd 2016 og síðar verði undanþegin.
  • Grímuskylda verður tekin upp innanhúss og þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra reglu. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin.
  • Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verði 200.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvum sem og sund- og baðstöðum verður heimilt að hafa opið fyrir 75% af hámarksfjölda leyfilegra gesta. Sameiginlegan búnað skal sótthreinsa milli notenda.
  • Söfnum verður heimilt að taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta.
  • Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna heimilar með og án snertinga með 100 manna hámarksfjölda. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými sem skulu skráðir í sæti. Veitingasala óheimil á keppnisstöðum.
  • Æfingar og sýningar sviðslista og sambærilegrar starfsemi heimilar með allt að 100 manns á sviði. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými, svo sem í bíóhúsum. Heimilt að hafa hlé en enga veitingasölu í hléum. Skrá skal gesti í sæti.
  • Hámarksfjöldi gesta við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga verður 200.
  • Opnunartími veitingastaða, skemmtistaða o.þ.h. verður til kl. 23:00 (tæma þarf staði fyrir miðnætti) og hámarksfjöldi gesta 100 manns í rými. Vínveitingar bornar fram til sitjandi gesta. Skrá skal gesti.
  • Tjaldstæði og hjólhýsasvæði fari eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis og Ferðamálastofu.

Sjá nánar á Covid.is >

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir