Rokkkórinn með tónleika á Hvammstanga og söngleikur í vor - Ingibjörg Jónsdóttir tekin tali
Þann 19. nóvember nk. mun Rokkkórinn á Hvammstanga halda tónleika þar sem flutt verða níu lög við undirspil fimm manna hljómsveitar. Einhverjir kórmeðlimir munu einnig syngja einsöng en einn gestasöngvari kemur fram og syngur á móðurmáli sínu, portúgölsku. Rokkkór er eitthvað sem ekki hefur áður verið starfandi í Húnaþingi og því lá vel við að spyrja kórstjórann hvernig í málinu liggur.
Það er Ingibjörg Jónsdóttir, frá Syðsta-Ósi í Miðfirði, sem stjórnar Rokkkórnum en hún er með 7. stig á píanó og hefur verið í hljómsveitum frá 13 ára aldri. Hún hefur m.a. stýrt nokkrum tónlistarverkefnum síðustu ár og má í því sambandi nefna minningartónleikum þeirra er létust fyrir fertugt í Húnaþingi vestra, cover tónleikum hljómsveitarinnar Nýdönsk og Stuðmanna sem og söngleikjanna Súperstar og Hárið sem Leikflokkur Húnaþings vestra setti upp svo eftirminnilega. Eftir að hafa unnið að þeim verkefnum segist henni hafa orðið ljóst hve mikinn mannauð væri að finna í Húnaþingi vestra og því kjörið að halda áfram með nýjum verkefnum.
Hún segist hafa borið upp þá hugmynd við kórinn að halda tónleika á seinni hluta ársins. Var tekið vel í það og ákveðið að halda tónleikana áður en jólatörnin hæfist. En hvernig skyldi Rokkkórinn hafa orðið til?
„Það kom til tals árið 2020 hvort ég væri til í að koma af stað kór sem mundi einblína á popp og rokklög. Ég ákvað að slá til þó svo að ég hefði í raun aldrei stjórnað neinum kór áður, nema í söngleikjaverkefni leikflokksins,“ útskýrir Ingibjörg og á þar við Leikflokk Húnaþings vestra. „Við byrjuðum kannski ekki á besta tíma, Covid átti eftir að hafa áhrif næstu tvö árin þannig að þetta komst aldrei almennilega af stað fyrr en í byrjun þessa árs. Æfingar hafa verið heima hjá mér á Ósi og fannst mér það tilvalið á meðan hægt væri upp á pláss að gera. Bæði minni kostnaður sem og meira miðsvæðis þar sem þátttakendur koma víðsvegar að úr sveitarfélaginu. Ég hef haft eina til tvær æfingar í viku eftir framvindu hvers lags. Til að halda níu laga tónleika í nóvember varð þetta auðvitað allt að ganga upp en auðvitað var tekið sauðburðar- og sumarfrí,“ segir hún.
Spennandi að sjá afraksturinn
Aðspurð hve marga kórinn telur segir hún fólk hafa verið að koma og fara en í lokin hafi fæðst 19 manna kór. „Konur eru í meirihluta, þrettán talsins en við vonumst til að með tónleikunum eigi eftir að bætast í hópinn enda er nóg af fólki hér á svæðinu, bæði vant og óvant, sem væru góðir kandidatar í kórinn. Það sem mér finnst stoppa fólk helst við að vera í kórnum er tímaleysi, eða það segir það a.m.k. við mig,“ segir hún og brosir. Óhætt er að segja að kynslóðirnar sameinist í kórnum því aldursforsetinn er 73 ára en sá yngsti 19 ára.
Rokktónleikarnir verða haldnir 19. nóvember í Félagsheimilinu Hvammstanga og hefjast kl. 20:30. Húsið opnar kl. 19:30 þar sem Pílufélagið á Hvammstanga ætlar að bjóða upp á drykkjarveitingar. Eins og segir í inngangi verða níu lög á dagskránni sem ná yfir 32 ára tímabil tónlistarsögunnar og verður undirspil í höndum fimm manna hljómsveitar, skipaðri heimamönnum. „Við verðum með einn fremsta hljóðmann landsins með okkur; heimamanninn Sigurvald Ívar Helgason og Ævar Marteinsson mun sjá til þess að hvert lag verði skreytt flottri ljósasýningu.
Einsöngur verður sunginn af meðlimum kórsins auk þess sem gestasöngvarinn Luis Aquino, sem ættaður er frá Brasilíu, ætlar að syngja eitt lag á sínu móðurmáli, portúgölsku. Þetta verður, má segja, frumraun hér í Húnaþingi vestra að setja upp kórtónleika með heilli hljómsveit þar sem hver meðlimur verður með sinn eigin hljóðnema. Það verður því spennandi að heyra og sjá afraksturinn.“
Himinn og jörð
Auk þess að standa í tónleikahaldi hefur Ingibjörg einnig verið í stjórn Leikflokks Húnaþings vestra frá upphafi og hefur verið verkefnastjóri í þeim tveimur söngleikjum sem hann hefur sett upp. Nú stendur til í vor að Leikflokkurinn setji upp frumsaminn söngleik Himinn og jörð en þar verður Ingibjörg verkefnastjóri.
„Himinn og jörð er söngleikur sem saminn er í kringum 17 lög Gunnars Þórðarsonar. Handritshöfundur er Ármann Guðmundsson en hann er meðal annars meðlimur í hljómsveitinni Ljótu hálfvitarnir og mun hann leikstýra verkinu. Eftir að hafa sett upp tvo söngleiki fannst okkur tilvalið að breyta aðeins til og koma með eitthvað nýtt en samt í kringum tónlist sem væri kunnugleg í eyrum áhorfenda.“ Ingibjörg segir að fjöldi fólks komi að uppsetningunni eða um 45 manns í heildina. „Þetta eru 30 manns á sviði og tíu í baksviðsstörfum. Ekki má svo gleyma barnapössuninni og matseldinni en leikflokkurinn hefur séð til þess að barnapössun sé á æfingarstað ef æfingar verða í lengri kantinum og um helgar.“
Athygli vekur að Grímuverðlaunahafinn Chantelle Carey semur dansa við verkið en hún hefur getið sér góðan orðstír í hinum alþjóðlega dansheimi. Liggur því beinast við að spyrja hvernig hún tengist þessu verki.
„Ég fékk Félag íslenskra listdansara til að auglýsa fyrir okkur innan félagsins og sýndi Chantelle verkefninu áhuga. Eftir að hafa hitt Ármann leikstjóra, og farið yfir handrit og lögin í verkinu, ákvað hún að vera með okkur í þessu.“
Snædrottningin á fjölum Félagsheimilisins á Hvammstanga.
Til stóð að setja sýninguna upp síðasta vetur en ákveðið var að fresta því vegna Covid. Þó búið væri að létta ströngustu hömlum sóttvarnareglna þótti Covid áhrif geta haft áhrif á aðsókn. „Fólk var enn með varann á sér og vildum við í raun vera alveg laus við það. Við vorum líka nýbúin að skila frá okkur Pétri Pan, sem var svo valin Áhugaverðasta áhugaleiksýningin þetta árið, ásamt söngleiknum Fyrsti kossinn frá Leikfélagi Keflavíkur.“ Að sögn Ingibjargar hafði frestunin nokkrar breytingar í för með sér því einn af aðalleikurunum datt úr skaftinu ásamt tveimur í aukahlutverkum sem og tveir úr hljómsveitinni en hún segir að búið sé að manna þessi hlutverk á ný.
Metnaðurinn í leiklistinni í Húnaþingi vestra er magnaður og það að hafa hlotið þann heiður að eiga athyglisverðustu áhugaleiksýningar er aðdáunarvert. Hver er galdurinn?
„Ég held að viljinn og áhugi allra þátttakenda sé númer eitt, tvö og þrjú. Að ráðast í stór verkefni án þess að láta neitt stoppa sig. Maður lærir með hverri sýningu og skemmtilegast er að fá að sjá heimafólk sýna sig og sanna, hvort sem er uppi á sviði eða baksviðs. Sumir hafa komið sveitungum sínum verulega á óvart og er það eitt af því sem mér finnst skemmtilegast við þessi verkefni.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.