Rabb-a-babb 203: Sara Ólafs

Sara Ólafs á hjólhesti. AÐSEND MYND
Sara Ólafs á hjólhesti. AÐSEND MYND

Nafn: Sara Ólafsdóttir.
Árgangur: 1988.
Fjölskylduhagir: Einhleyp og barnlaus.
Búseta: Hvammstangi.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Ég er dóttir Óla Stebba og Huldu Einars á Reykjum. Er alin upp þar á bæ í hressilegu hrútfirsku sveitalofti.
Starf / nám: Starfandi grunnskólakennari við Grunnskóla Húnaþings vestra
Hvað er í deiglunni: Að sigla inn í nýtt skólaár, hefðbundin hreyfing og hauststörf með tilheyrandi gleði. [Rabbinu skilaði Sara um miðjan september]

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Bara svona þokkalegur held ég. Var sjaldan til mikilla vandræða og nokkuð klók, lærði t.d. snemma að lesa í kennarana og segja bara það sem þeir vildu heyra, þá gekk allt eins og í sögu.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Sennilega veisluföngin og gjafirnar enda bæði sælkeri og nautnaseggur.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Tannlæknir, sem er eiginlega hálf fáránlegt í ljósi þess að það er fátt sem ég á jafn erfitt með og að fara til tannlæknis.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Við systkinin vorum mikið að vinna með Playmoið svona á milli þess sem við djöfluðumst í útileiktækjum; heimatilbúnu vegasalti og rólum

Besti ilmurinn? Angan af gróðri eftir rigningu.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Makalaus.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ætli það hafi ekki verið Sálin og Bubbi.

Hvernig slakarðu á? Er frekar léleg í því, sennilega helst í pottinum. Alla vega ekki við prjónaskap!

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu ? Norrænum þáttaröðum. Annars horfi ég lítið á sjónvarp í dag en var um tíma vandræðalega upptekin á föstudagskvöldum, þurfti að taka Útsvar.

Besta bíómyndin? Er algjör sökker fyrir gömlum íslenskum kvikmyndum en annars er Gladiator alltaf pínu uppáhalds, ekki margar myndir sem fá mig til að grenja og það oftar en einu sinni.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Körfuknattleiksmanninum M. Jordan

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Er ferlega léleg í eldhúsinu, sannkallaður viðvaningur þar. Það er kannski einna helst að ég geti hnoðað í sæmilegt sætabrauð.

Hættulegasta helgarnammið? Gott súkkulaði og rauðvín.

Hvernig er eggið best? Hrært.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Á það til að ofhugsa hlutina. Svo get ég verið andskoti þrá en það bitnar kannski mest á þeim sem neyðast til að umgangast mann.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Reyni nú helst að velta mér ekki of mikið uppúr öðru fólki og því sem ég get ekki breytt en hömlulaus frekja og yfirgangur geta verið þreytandi.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Flæktu ekki líf þitt að óþörfu.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ein af mínum elstu minningum er þegar ég vaknaði um miðja nótt í stofunni heima eftir að hafa grenjað mig, ömmu og afa í svefn. Ástæðan var sú að ég fékk ekki að fara með foreldrum mínum á þorrablót. Þarna hef ég verið u.þ.b. 4 ára.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Gæti eiginlega ekki hugsað mér að vera fræg persóna, hálf vorkenni þeim og myndi aldrei höndla athyglina.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Íslenskar skáldsögur, enginn einn höfundur eða bók.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? ,,Flott mál"

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? 
 Til dæmis æskuvinkonum mínum þremur, kominn tími á það.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Mig hefur alltaf langað að hitta Einar afa minn. Myndi því fara aftur til þeirra ára þegar hann var uppá sitt besta.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Þar hafiði það... og hananú!

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
 Alltaf í sól og sumaryl, best geymd þar.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Fleiri samverustundir með fjölskyldu og vinum, ferðast meira um heiminn og skoða landið okkar betur, helst á hlaupum, hjóli eða hestum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir