Rabarbarahátíðin komin til að vera

Forsíðumynd feykis í dag. Fleiri skemmtilegar myndir er að sjá inn í fréttinni. Myndir aðsendar.
Forsíðumynd feykis í dag. Fleiri skemmtilegar myndir er að sjá inn í fréttinni. Myndir aðsendar.

Laugardaginn 29. júní fór fram Rabarbarahátíð í Húnabyggð, nánar tiltekið í gamla bænum á Blönduósi. Var þetta í fyrsta skiptið sem þessi hátíð er haldin en aðalmarkmið hátíðarinnar var tvíþætt; annars vegar að vekja fólk til umhugsunar um rabarbara og nýtingu hans og hins vegar að vekja athygli á svæðinu sem er falin perla. Þar sem hátíðin var einkaframtak grasrótarhóps sem hefur tröllatrú á tröllasúrunni tryggu gáfu allir vinnuna sína og ýmiss fyrirtæki og einstaklingar styrktu hátíðina með einum eða öðrum hætti. 

Feykir sendi nokkrar spurningar á Elfu Þöll og spurði m.a. út í hvernig þessi hugmynd hafi komið upp. En það var í góðum göngutúr um gamla bæinn sem hún varð til. Þá vakti athygli þeirra, Elfu Þallar Grétarsdóttur og Bjarkar Bjarnadóttur, skipuleggjendur hátíðarinnar, hversu mikill rabarbari fengi að vaxa án þess að vera nýttur. Í framhaldinu var farið af stað í hugmyndavinnu og stóð undirbúningur yfir í um hálft ár. 

Fannst þér vel tekið í hugmyndina? ,,Já og nei, það voru vissulega skiptar skoðanir á því hvort ætti að halda þessa hátíð sérstaklega eða hvort hún ætti að vera samhliða bæjarhátíð okkar Húnavöku en þar sem júní er aðal uppskerumánuður rabarbarans þá fannst okkur ekki koma til greina að halda hana eftir miðjan júlí. Margir tóku hugmyndinni vel og var það okkur hvatning til að láta verða af þessu. Markmið hátíðarinnar er tvíþætt, annars vegar að vekja fólk til umhugsunar um rabarbara og nýtingu á honum og hins vegar að vekja athygli á svæðinu sem er vel falin perla. Gamli bærinn á Blönduósi hefur verið á áfangastaðaáætlun sveitarfélagsins í nokkur ár en hefur lítið sem ekkert verið markaðssettur ennþá. Síðustu árin hafa margir húseigendur í bænum gert upp húsin sín og það er stefnan að halda sem upprunalegustu útliti í þessum bæjarhluta. Ein af sérstöðum þessa gamla bæjarhluta er sú að hér hefur heildarásýnd lítið breyst síðustu áratugi en ekkert nýtt hús hefur verið byggt á svæðinu síðan í upphafi áttunda tugs síðust aldar þegar Brauðgerðin Krútt var byggð. Síðasta íbúðarhúsið sem var byggt á svæðinu er Helgafell sem var byggt um miðja síðustu öld. Í gamla bænum á Blönduósi eru sýnishorn af byggingarstíl heillar aldar frá um 1880-1970 eða þar um bil."

Hvaða viðburðir voru best sóttir? ,,Ætli það hafi ekki bara verið markaðstorgið okkar þar sem fólk gat fengið að smakka á ýmsu úr rabarbara svo sem graut, sýrópi, mismunandi sultur svo vorum við líka með reyktan rabarbara sem mér fannst mjög áhugaverður. Einnig var listsýning mjög vel sótt. Söguganga með Sillu Hermanns og Katharinu Schneider sló rækilega í gegn og var mjög vel sótt af heimamönnum og gestum. Fuglaskoðun með Einari Þorleifssyni og draugaganga með Björk Bjarnadóttur voru báðar mjög vel sóttar. Einnig kom það skemmtilega á óvart hve góð þátttaka var í uppskriftakeppninni og bárust mjög fjölbreyttir réttir í keppnina."

Elfa Þöll sagði í samtali við Feyki að þessi hátíð væri klárlega komin til að vera og eigi bara eftir að vaxa og dafna og það sem kom henni mest á óvart þegar hún fór að kynna sér rabarbarann að hann er algjörlega háður mannshöndinni við landnám, þ.e. hann dreifir sér ekki sjálfur heldur þarf að setja niður hnaus með rót.

Þá vildi hún koma því á framfæri að listakonurar Inese Elferte og Morgan Bresko lögðu verulega að mörkum til hátíðarinnar.  Morgan með því að mála útlínur af íslenskum blómum og Inese málað mynd af rabarbara á vegg við Hnjúkabyggðina. Þær voru  svo saman með listasmiðju fyrir börnin og leyfðu þeim að mála blómin. 

Í lokin sagði Elfa Þöll ,,Það gladdi okkur mjög að sjá hve vel gestir skemmtu sér, sérstaklega börnin en það var frá upphafi okkar stefna að virkja þau og kynna rabarbarann fyrir þeim. Þau fengu að smakka rabarbara með sykri og fengu aðstoð við að taka upp rabarbara til að taka með sér heim ásamt uppskriftum." 

Elfa Þöll hvetur alla sem hafa áhuga á að vera með á næsta ári að fylgja þeim á Facebook í hóp sem heitir Rabarbarahátíð í gamla bænum á Blönduósi.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir