Northern Seafood stefnir á að rækta krækling í Hrútafirði, Miðfirði og Skagafirði

Einkahlutafélagið Northlight Seafood vilji hefja skelræktun í tilraunaskyni í Hrútafirði, í Miðfirði og sömuleiðis í Skagafirði og hefur sótt um tímabundið leyfi til MAST til að kanna hvort svæðin henti til slíkrar ræktunar.

Á fundi byggðarráðs Húnaþings vestra sem og á fundi byggðarráðs Skagafjarðar var í síðustu viku lögð fram beiðni MAST um umsögn vegna umsóknar fyrirtækisins um tilraunaleyfið, sem veitir ekki heimild til dreifingar afurða til neyslu og gildir að hámarki til þriggja ára í senn. Heimilt er að endurnýja leyfið samkvæmt umsókn leyfishafa í eitt ár í senn þannig að leyfið gildi að hámarki í sex ár.

Byggðarráð Skagafjarðar samþykkti samhljóða að bjóða fulltrúa Northlight seafood á næsta fund byggðarráðs.

„Byggðarráð gerir ekki athugasemd við útgáfu tilraunaleyfisins að því gefnu að hugað verði að góðri umgengni leyfishafa um tilraunasvæðið, för smábáta um svæðið verði ekki heft, auk þess að ummerki um tilraunaræktunina verði fjarlægð að leyfistíma loknum,“ segir í frétt Húnahornsins um málið sem vitnar síðan í heimasíðu Northlight Seafood þar sem segir að fyrirtækið muni rækta krækling á flekum og vinna ferskar og frystar afurðir úr kræklingnum. Vinnslutækni og framleiðsluferlar séu þekktir. Unnið hafi verið að þróun flekaræktuna í nokkur ár og ræktunarleyfi hafi verið veitt í Skötufirði til þriggja ára og tilraunaræktun í Hvammsfirði.

„Kræklingamarkaður er stór og töluverð eftirspurn er eftir kræklingi. Markaðir fyrir frystar og virðisaukandi afurðir eru vænlegir fyrir það magn sem hér er gert ráð fyrir að vinna,“ segir á vef fyrirtækisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir