Mannabreytingar hjá Farskólanum

Breytingar hafa verið og verða hjá Farskólanum á Sauðárkróki á næstu misserum en í apríl var auglýst eftir verkefnastjóra og í byrjun júní var auglýst eftir framkvæmdastjóra. Í stöðu verkefnastjóra var Þórhildur M. Jónsdóttir ráðin, eða Tóta eins og flestir þekkja hana, en í stöðu framkvæmdastjóra hefur enn ekki verið ráðið en umsóknarfrestur rann út þann 15. júní sl. Það er Bryndís Þráinsdóttir sem gegnir þeirri stöðu í dag en hún hefur sagt stafi sínu lausu.

Nýi verkefnastjórinn, Þórhildur, er matreiðslumeistari að mennt og með BA gráðu í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum. Auk þess hefur hún lokið við verkefnastjórnun og leiðtoganám. Þeir sem sótt hafa alls konar matartengd námskeið hjá Farskólanum undanfarin ár þekkja vel til Þórunnar því þar hefur hún haldið fjölda námskeiða. Hún var einnig forsprakkurinn af verkefninu Sölubíll smáframleiðenda en það hlaut 5. millj.kr styrk úr sérstöku átaksverkefni til að sporna við áhrifum heimsfaraldursins í landshlutanum.

Á Facebook-síðu Farskólans var svo tilkynning um að Jóhann Ingólfsson, sem verið hefur verkefnastjóri hjá Farskólanum frá árinu 2003, hafi látið af störfum hjá Farskólanum, að eigin ósk. Jóhann hefur sinnt verkefnastjórnun og tæknimálum af mikilli alúð öll hans ár hjá Farskólanum og átti það til að kalla sig ,,húskarl" á hæðinni sem Farskólinn er með aðsetur á Króknum þegar hann var spurður að því hvaða verkefnum hann sinnti. Farskólinn þakkar honum samstarfið og óskar honum góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.

Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra hélt svo aðalfund í maí og þar var sagt frá því að árið 2023 voru haldin 99 námskeið og fyrirlestrar. Þá voru kennslustundirnar samtals 1.550 talsins þar sem voru 13.700 nemastundir. Nemendur voru alls 1.157 þar sem konur voru 927 og karlar 210. Meðalaldur nemenda var 44 ár þar sem sá yngsti var 16 ára og sá elsti 78 ára. Á myndinn hér fyrir neðan má sjá þá aðila sem sátu aðalfundinn þann 16. maí sl. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir