Vinir Ferguson og Vestfjarða. Á traktorum gegn einelti. Dagbók hringfara. Sögur af sögum, fólki og stöðum

Mynd: Karl Friðriksson og Grétar Gústavsson aka traktorum til stuðnings Vináttu gegn einelti. Myndir aðsendar.
Mynd: Karl Friðriksson og Grétar Gústavsson aka traktorum til stuðnings Vináttu gegn einelti. Myndir aðsendar.

Öll eigum við okkur drauma. Að láta drauma sína rætast er ákveðin lífsfylling, gleði yfir því að væntingar hafa verið uppfylltar. Að æskudraumur rætist er ekki sjálfgefið. Þeir eru oftar en ekki óraunhæfir og barnalegir, sérstaklega eftir því sem árin líða. Með hringferð okkar félaga árið 2015 um landið og svo að hafa farið Vestfjarðaleiðina árið 2022 höfum við náð því endanlega að láta draum okkar frá æsku rætast, það er að keyra Massey Ferguson, 35X árgerð 1963 hring í kringum um allt landið.

Það er ekki síður lífsfylling að geta látið gott af sér leiða um leið og draumur manns rætist. Það hefur gefið okkur félögum mikið að geta stutt verkefni Barnaheilla, Vináttu, gegn einelti. Annar okkar upplifði mikið einelti og báðir hafa orðið vitni að einelti og langtíma afleiðingum slíkrar hegðunar. Markmið bókarinnar er að vekja enn frekar athygli á alvarleika eineltis og mikilvægi þess að vinna að því að láta drauma sína rætast en einnig að segja sögur af vegferð okkar og sögur frá samferðafólki og áhugaverðum stöðum.

Vonandi höfðar bókin einnig til áhugamanna um búsögu og þeirra sem dunda sér við að gera upp traktora eða aðrar bifreiðar. Við viljum þakka öllum sem hafa stutt okkur í þessu ævintýri okkar. Það væri of langt að telja þau upp í formála en endilega hugsið vel til þeirra við lestur bókarinnar.

Þó svo að ég hafi mótað texta bókarinnar þá á Grétar stóran hlut í þessu verkefni. Grétar er vélamaðurinn í teyminu, beinið spurningum til hans um gírhjól í gírkassa ef með þarf en ekki til mín. Það er óvenjulegt að hafa þrjú ávörp í einni bók en hver og einn þessara aðila á erindi í bókina þótt á ólíkan hátt sé.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, er sveitamaður í góðri merkingu þess orðs. Hann hefur verið í forystu við að bæta hag barna og ungmenna.

Vinir Ferguson og Vestfjarða

Mikael Torfason rithöfundur er Valdarássmaður eins og við Grétar. Hann keyrði „vélina okkar“ og deilir því að hluta til hugarheimi okkar. Hann segir í ávarpi sínu skemmtilega sögu, en þær hafa örugglega verið fleiri.

Guðni Ágústsson, fyrirverandi alþingismaður og landbúnaðarráðherra, hefur beitt sér fyrir umbótum í dreifðum byggðum, verið talsmaður landbúnaðar og er sögumaður mikill. Munum að hafa í huga jákvæðni og náungakærleik, það skapar hamingju og orku til að láta væntingar verða að veruleika.

Vinir Ferguson eru Grétar Gústavsson og Karl Friðriksson, báðir sveitastrákar frá bænum Valdarási í Fitjárdal í Vestur-Húnavatnssýslu. Grétar er árgerð ΄53. Hann er sérstakur áhugamaður um búvélar og fornbíla og meistari í bifvélavirkjun enda hefur hann unnið við þá iðn í áratugi.

Karl er einu og hálfu ári yngri, búsettur á Hrísum í Fitjárdal, næsta bæ við Valdarás. Hann er búfræðingur, búfræðikandídat, hagfræðingur og framtíðarfræðingur og er framkvæmdastjóri Framtíðarseturs Íslands. Eftir hann liggja ýmis fræðirit um stjórnun og nýsköpun en jafnframt bækur og greinar um almennan fróðleik.

Undanfari ferðarinnar

Það var árið 2015 sem við félagarnir, Grétar Gústavsson og ég, Karl Friðriksson, létum æskudraum okkar rætast. Þá voru liðin 50 ár frá því að við ræddum saman um þennan draum okkar, að keyra hringinn í kringum landið á uppáhaldstraktornum okkar frá æsku Massey Fergunson 35X, módel 1963. Eins og kemur fram í bókinni sem skrifuð var um ferðina okkar árið 2015, og bar nafnið Vinir Ferguson ólumst við upp á bænum Valdarási í Fitjárdal Vestur-Húnavatnssýslu. Ég var í sveit þar frá fimm ára aldri en Grétar var í fóstri þar frá sex ára aldri. Við notuðum traktora búsins og þá sérstaklega Massann, við hvers kyns ærslagang, svo sem að festa traktora í mýrum og fenjum, þegar húsráðendur voru ekki við, milli þess að nota þá við bústörf og ferðalög á milli bæja.

Draumur okkar, að keyra í kringum landið á uppáhaldsvélinni okkar, rættist sumarið 2015. Við byrjuðum 25. júní og enduðum ferðina 8. júlí á Norðlingaholti á tilsettum tíma eftir 14 daga ferðalag. Móttökurnar voru frábærar og gleðin mikil yfir því að ferðin hefði verið farin og að hún hefði skilað miklu í söfnun Barnaheilla gegn einelti.

Frekari áskoranir – Áttan – Vestfjarðaleiðin

Í sömu andrá og við nutum þess að vera komnir að endastöð, og þar með að hafa látið drauminn okkar rætast, var komið að máli við okkur og okkur bent á að við hefðum eiginlega ekki farið hringinn, Vestfirðir urðu út undan. Þegar leið á heyrðum við þetta oftar og einstaka sinnum frá því að við fórum „hringinn“ fengum við áskorun um að klára dæmið og fara Vestfjarðahringinn, eða Vestfjarðaleiðina eins og heimamenn vilja nefna hana.

Grétar vildi fara strax sumarið eftir og klára málið en ég sagði að það kæmi ekki til greina, við færum sumarið 2020. Grétar sagði að líklega yrðum við báðir dauðir þá!

En viðbragð mitt við því var að við hefðum þá enn meira til að lifa fyrir næstu árin. Síðan kom einhver veirufaraldur sem seinkaði mörgu og þar með þessum viðburði. Við upphaf þessa árs kom skriður á þá hugmynd að fara Vestfjarðaleiðina, eða -hringinn, og klára dæmið. Þegar við fórum að hafa orð á því fengum við góðar undirtektir og hvatningu. Já, þið ætlið að fara áttuna sagði einn mætur maður, líkindamál um að stóri hringurinn væri neðri hlutinn af áttunni en Vestfjarðaleiðin væri efri hlutinn.

Skemmtileg hugsun.

/Karl Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir