Kríur bætast á fuglaflensulista :: Ekki orðið var við fugladauða af fuglaflensu á Norðurlandi vestra
Matvælastofnun varar enn við hættu á fuglaflensusmiti frá villtum fuglum yfir í alifugla en stofnunin lítur svo á að smit með skæðum fuglaflensuveirum sé viðloðandi í villtum fuglum víða á landinu. Þó hafi færri veikir eða dauðir villtir fuglar verið tilkynntir til Matvælastofnunar í júlí og það sem af er ágúst en mánuðina á undan.
Á heimasíðu MAST segir að kríur hafi bæst á lista þeirra tegunda sem hafa greinst með fuglaflensu en í júlí fundust veikar kríur á Höfn í Hornafirði.
Feykir greindi frá dauðum lundum sem fundust í fjörunni við Sauðárkrók í síðasta blaði en ekki hefur Feykir upplýsingar hvort sýni hafi verið tekin úr hræjunum. „Ég hef blessunarlega ekki orðið var við fugladauða af fuglaflensu í sumar á Norðurlandi vestra,“ segir Einar Ó. Þorleifsson, náttúrufræðingur hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra. „Það getur verið margt sem orsakar dauða lunda á fjörum í Skagafirði enda mjög stór lundavörp í Drangey, Málmey og Lundey. Ég hef ekki heyrt um örugg tilfelli fuglaflensu í lunda eða öðrum svartfuglum þó að slíkt sé ekki hægt að útiloka. Sem stendur er töluvert að drepast af helsingjum og álftum í Skaftafellssýslunum. Fyrr í sumar var nokkuð um að súlur væru að veikjast og drepast af flensunni og sama á við um skúm.“ Einar segir að til að fá úr því skorið hvort að um fuglaflensu sé að ræða þarf að senda sýni til Matvælastofnunar/ MAST og líkt og í þessu sambandi væri líklega einfaldast að hafa samband við héraðsdýralækninn.
Banna ekki fuglaveiðar
Við núverandi aðstæður telur MAST ekki ástæða til að banna fuglaveiðar hér á landi vegna smithættu í fólk.
„Það afbrigði fuglaflensuveirunnar sem nú er mest um í Evrópu og víðar veldur almennt ekki sýkingum í fólki. Einstaka smit hafa komið upp en þá hjá einstaklingum sem hafa verið í miklu návígi við sjúka fugla án þess að gæta sóttvarna. Líkurnar á smiti frá fuglum í fólk eru því mjög litlar en þó er aldrei hægt að útiloka smit og fólk þarf ávallt að gæta sóttvarna við handfjötlun á veikum og dauðum fuglum. Engin dæmi eru um að fólk smitist af fuglaflensu við neyslu matvæla.
Rétt er að taka fram að það afbrigði fuglaflensunnar sem finnst í fuglum í dag er ekki sama afbrigði og var í gangi fyrir tæpum 20 árum og olli alvarlegum veikindum í fólki.“ Sjá nánar HÉR.
/PF
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.