Heiða Björg næsti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, verður næsti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga en kosning fór fram dagana 15. – 29. ágúst sl. Auk Heiðu Bjargar bauð Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sig fram til að gegna embætti formanns næstu fjögur árin.
Í tilkynningu frá sambandinu kemur fram að Heiða Björg muni taka við embætti af Aldísi Hafsteinsdóttur, núverandi formanni, á landsþingi sambandsins sem haldið verður á Akureyri dagana 28.-30. september. Á landsþinginu verður stjórn sambandsins kjörtímabilið 2022-2026 kjörin.
„Á kjörskrá voru 152 landsþingsfulltrúar og var kosningaþátttaka 98,03%. Heiða Björg hlaut 76 atkvæði eða 51,01%, en Rósa Guðbjartsdóttir hlaut 73 atkvæði eða 48,99%.
Heiða Björg er fædd og uppalin í Eyjafirði, en hefur búið í Reykjavík nær öll hennar fullorðinsár. Heiða Björg var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar í febrúar 2017, hún hefur setið í borgarstjórn Reykjavíkur í 9 ár og verið varaformaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga síðustu 4 ár,“ segir í tilkynningu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.