„Hefur þá þýðingu að minna samfélagið á hversu gott og gaman er að búa í Húnaþingi vestra“
Fjölskyldu- og bæjarhátíðin Eldur í Húnaþingi verður haldin nk. helgi, dagana 26. – 30. júlí. Hátíðin fer fram á Hvammstanga og hefur verið haldin árlega frá árinu 2003 en tekið miklkum breytingum í gegnum tíðina og hefur í dag fengið á sig fjölskyldu- og bæjarhátíðarblæ.
„Tilgangur hátíðarinnar í dag er aðallega að viðhalda frábærri hefð sem skapast hefur síðustu tvo áratugi, hrista saman íbúana, bjóða upp á fjölbreyta skemmtun, afþreyingu og námskeið fyrir unga sem aldna. Hátíðin hefur þá þýðingu að minna samfélagið á hversu gott og gaman er að búa í Húnaþingi vestra og hampa frábærum listamönnum af svæðinu og ýtir undir samheldni íbúa þar sem íbúar taka höndum saman og halda saman utan um hina ýmsu viðburði eins og t.d. brennó og borðtennismót, púttmót, brunaslöngubolta og fleira og fleira,“ segir Þórunn Ýr Elíasdóttir, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, þegar Feykir hafði samband við hana.
Hvernig kviknaði hugmyndin um Eld í Húnaþingi og hvernig hefur hann þróast í gegnum árin? „Hátíðin byrjar með ungu fólki í sveitarfélaginu og var fyrst um sinn unglistahátíð. Þá var hún bæði skipulögð og framkvæmd af ungi fólki í Húnaþingi vestra. Með tímanum fékk hátíðin á sig fjölskyldu- og bæjarhátíðarblæ og hefur dagskráin verið breytileg með ári hverju en hún ræðst oftar en ekki af áhugasviði stjórnenda, sem undanfarin ár hafa verið fólk á öllum aldri. En sumir dagskrárliðir eru algerlega fastir liðir og má þar nefna Melló Músika þar sem hæfileikaríkt fólk stígur á stokk og spilar og syngur fyrir áhorfendur.“
Hvernig hvetjið þið íbúa sveitarfélagsins til að vera virkir þátttakendur í hátíðinni og hvernig hefur það gengið? „Þessi tvö skipti sem ég hef séð um undirbúning hátíðarinnar hef ég auglýst eftir sjálfboðaliðum, fólk hefur sjálft komið að tali við mig og boðið fram aðstoð, ég hef talað við fólk til að fá það til liðs við mig. Það hefur gengið upp og ofan en þó alltaf gengið og allir sem taka þátt mjög jákvæðir, tilbúnir og samhuga um að gera flotta hátíð enn flottari og enn betri.“
Hvers konar undirbúning þarf til að halda hátíðina? „Það þarf að útbúa beinagrind, hvað viljum við bjóða upp á hvert sumar, hversu þétt á dagskráin að vera, hvað hentar hverjum aldurshópum o.s.frv. Svo þarf að panta skemmtiatriði, ballsveitir, sjá til að hver viðburður hafi húsnæði, vera með plan B ef útiviðburðir skyldu klikka, útbúa dagskrá og auglýsa, skreytingar eru líka liður í undirbúningi því það er gaman að brjóta upp hversdagsleikann með einhverju sem gleður augað á förnum vegi. Þetta er svona stiklað á stóru varðandi undirbúning en það er klárt að það þarf að líta í mörg horn og leysa eitt og annað sem kemur upp.“
Getur þú talið upp helstu atriði hátíðarinnar og hvers má vænta? „Hef stiklað á stóru með t.d. Melló musika, brennó, borðtennis, pútt o.s.frv., svo verða tónleikar sem færast svo yfir í dansleik með Krumma og krákunum, Paparnir munu stíga á stokk og halda uppi gleðinni, ungur heimamaður mun bjóða upp á brekkusöng, eldri borgararnir okkar munu svo standa fyrir heimsmeistaramótinu í kínaskák, parakeppni í félagsvist og prjónkeppni sem virkar þannig að þriggja manna lið keppast við að prjóna sem flestar lykkjur á fimmtán mínútum. Frábær skemmtun og mikil ánægja með þennan lið hátíðarinnar í fyrra. Sveppi og Villi ætla svo að koma og skemmta fólki á öllu aldri á fjölskylduballinu okkar og hér með er þetta ekki allt upptalið. Hægt er að skoða dagskrána í heild sinni á heimasíðu Eldsins, eldurihun.is, og á Facebook síðu Eldsins. Og hafa ber í huga að næstum allt sem er í boði á hátíðinni er þátttakendum að kostnaðarlausu og opið öllum sem vilja taka þátt. Það er stefnan en við höfum þurft að rukka inn á böllin og svo hefur 10. bekkur á svæðinu notað þessa daga til fjáröflunar fyrir útskriftarferðinni sinni og selt grillaðar pylsur og fleira á stóru viðburðunum. Það má vænta þess að næsta vika verði full af gleði, eftirvæntingu og ánægju hér í Húnaþingi vestra.“
Eitthvað að lokum? „Mættum við öll skemmta okkur fallega og vel, muna eftir gleðinni og jákvæðninni. Góða skemmtun og munum að njóta og hafa gaman.“
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.