Framkvæmdir framundan í sundlauginni á Hvammstanga
Til stendur að fara í umfangsmiklar framkvæmdir við sundlaugina á Hvammstanga og verður nauðsynlegt að loka lauginni og sundlaugarsvæðinu öllu í nokkurn tíma en gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist 27. mars. Vonast er til að hægt verði að opna á ný ekki síðar en í lok júní. „Ef nokkur kostur er verður heitur pottur opnaður á framkvæmdatímanum en aðeins þegar hægt er að tryggja öryggi gesta á framkvæmdasvæðinu,“ segir í tilkynningu á vef Húnaþings vestra.
Fram kemur að gerður verður lagnakjallari milli sundlaugar og húss til að auðvelda viðhald lagna sem hefur verið vandkvæðum bundið undanfarin ár. Lagnir eru komnar til ára sinna og hafa verið að gefa sig með tilheyrandi óþægindum. Einnig stendur til að skipta um dúk á sundlaug sem líka er kominn til ára sinna og brýnt að endurnýja til að tryggja öryggi sundgesta og koma í veg fyrir tjón á lauginni sjálfri.
„Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem lokunin kann að valda. Sundlaugarferðir eru stór þáttur í lífi margra íbúa en til að tryggja öruggan rekstur laugarinnar og pottanna til langs tíma eru þessar framkvæmdir nauðsynlegar. Við þökkum sundlaugargestum skilninginn og munum leggja allt kapp á að ljúka framkvæmdum eins fljótt og auðið er,“ segir ennfremur í tilkynningunni en framkvæmdirnar hafa ekki áhrif á íþróttasal og rækt og þá verða sturtur opnar.
Vegna minnkaðra umsvifa verður íþróttasal og rækt þó lokað yfir páskana og hugsanlega aðra hátíðisdaga fram á vor sem verður nánar auglýst síðar. Árskort í sund verða framlengd um þann tíma sem lokunin stendur yfir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.