Frambjóðendur Norðvesturkjördæmis í sviðsljósinu - Sigurlaug Gísladóttir Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn

Sigurlaugu Gísladóttur þekkja íbúar á Norðurlandi vestra sem verslunarmann í blóma og gjafavöruversluninni Húnabúð á Blönduósi en þar er einnig boðið upp á kaffi og heimabakað bakkelsi. Auk þess að vera verslunarmaður tekur Sigurlaug fram að hún sé einnig móðir, þegar spurt er um stöðu hennar í samfélaginu.

Sigurlaug er fædd og uppalin að mestu í Skagafirði, „í gömlu góðu Lýdó, með smá hliðarspori,“ eins og hún orðar það sjálf, þar sem hún bjó í Garðahreppi hinum forna sem nú heitir Garðabær. „Ég fór austur á Hallormstað 16 ára til að nema hússtjórnarfræði og kynnast nýju fólki. Og þar hitti ég manninn minn, Reyni Sigurð Gunnlaugsson, og í dag eigum við fjögur börn og þrjú barnabörn.“

Dóttir þeirra býr, ásamt sinni fjölskyldu, á Króknum en þau hjónin á Blönduósi ásamt strákunum þremur. „Við erum fyrrum sauðfjár- og loðdýrabændur og vorum með okkar búskap austur á Héraði í Hróarstungu. Hef einnig unnið mikið í verslun, og þá hjá Kaupfélagi Héraðsbúa, sem einu sinni var til. Einnig var ég gjaldkeri hjá Pósti og Síma heitnum og svo við skrifstofustörf hjá Malarvinnslunni á Egilsstöðum. En síðustu ár okkar fyrir austan var ég starfsmaður Velferðaráðnuneytis sem réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Austurlandi en svæði mitt náði frá og með Vopnafirði til og með Hornafirði og allt þar á milli. Nú eigum við og rekum blóma- og gjafavörubúð á Blönduósi sem einnig er kaffihús.“

Pólitík

Hvers vegna ættu kjósendur í Norðvesturkjördæmi að setja krossinn hjá þér?
„Vegna þess að ég veit að fleiri en ég eru orðin hundleið á sviknum kosningaloforðum og vilja sjá alvöru breytingar og það gerist ekki nema setja X við eitthvað annað en gert hefur verið. Við erum með sérlega góða byggðastefnu sem er hnýtt við landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu okkar. Hægt að skoða inn á X-O.is.“

Aðspurð um þau mál sem hún væri vís með að fylgja fast eftir segir hún þau ófá.
„Oddamálin eru ansi mörg, en til að gera langa sögu stutta færi ég trúlega fyrst í réttindabaráttu fyrir fatlað fólk og öryrkja, bæði hvað varðar kjör þeirra sem og aðgengi. Og svo að koma í veg fyrir að eldra fólk sé rænt lífeyrir sínum eins og gert er í dag.“

Til að svo megi verða, segir það sig sjálft að Sigurlaug þarf að fá góða kosningu: „Ég þarf auðvitað að komast í stjórn til þess, en fjármögnun verður ekki vandamál. Bara það að útgerðin greiði lögboðinn hlunnindaskatt, sem hún hefur sloppið við hingað til, fer trúlega langt með að fjármagna það og rúmlega það,“ segir hún ákveðin.

Hvað telur þú að brenni helst á kjósendum á Norðurlandi vestra?
„Ef ég tek mið að því sem fólk ræðir helst við mig beint þá eru það einmitt kjör öryrkja sem og okkar eldra fólks. En einhæft atvinnulíf vegur þar einnig þungt, sem og vegirnir okkar hér út frá þjóðvegi 1. Frjálsar handfæraveiðar eru nauðsynlegar og mjög mikilvægt fyrir þetta kjördæmi eins og mörg önnur.“

Sigurlaug vill ráðleggja kjósendum sérstaklega að kynna sér sjávarútvegsstefnu flokksins sem og landbúnaðarstefnu því þær innihalda einnig alvöru byggðastefnu. Þá vill hún ítreka skýringu hennar á þriðju jafnvægisspurningunni að Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er algerlega hlynntur frjálsum strandveiðum en bara fyrir allt að 10-12 metra báta.

Léttari spurningar

Hvaða dægurlag lýsir þér best og af hverju?
-Ja hérna, akkúrat núna man ég bara ekki eftir neinu.

Hvert er helsta afrek þitt fyrir utan pólitíkina?
Að vera enn uppistandandi eftir áratuga baráttu við KERFIÐ = velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið og skólakerfið án þess að bugast bæði andlega og líkamlega.

Þú heldur matarboð og auk vina þinna máttu bjóða einni persónu sem þú alla jafna hittir aldrei. Hver myndi það vera og af hverju býður þú henni? 
-Spaugstofugengið og get alls ekki gert upp á milli þeirra.

Hvert er aðaláhugamál þitt?
-Bútasaumur.

Jafnvægisspurningar

Hvar á skalanum frá 0 og upp í 10 þykir þér eftirfarandi málefni vera aðkallandi? Að því gefnu að 10 sé mikilvægast.

    1. Ísland gangi í ESB 0
    2. Fá splunkunýja stjórnarskrá 6
    3. Veita bátum undir 30 tonnum algjörlega frjálsar handfæraveiðar 0 -Við erum algerlega hlynnt frjálsum strandveiðum en bara fyrir báta allt að 10-12 metra báta.
    4. Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu 0
    5. Lækka almenna skatta 8
    6. Hækka skatta á stóreignafólk og stórútgerðir 10
    7. Stokka landbúnaðarkerfið upp 10
    8. Fleiri opinber störf án staðsetningar 10
    9. Afnema alfarið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra 10
    10. Banna alfarið vélar og farartæki sem brenna jarðeldsneyti 0 -Það er ekki hægt eins og staðan er í dag.

 

Lokaspurning

Hvernig upprætum við spillingu?
-Það er góð byrjun að sleppa því að kjósa gömlu fjórflokkana svokölluðu og afsprengi þeirra og svo er nauðsynlegt að vera með algert gegnsæi í eignarhaldi fyrirtækja sem og að sýna öll tengsl þeirra við önnur fyrirtæki, einstaklinga og eða félög.

 ----

Nú stendur kosningabarátta frambjóðenda til Alþingis sem hæst en kosningar fara fram á morgun laugardag. Af því tilefni fékk Feykir frambjóðendur Norðvesturkjördæmis til að svara misgáfulegum spurningum og kynna sig og stefnumál sín í kosningablaði sem kom út í síðustu viku. Sjá HÉR
Eins og gefur að skilja er forvitnast um pólitíkina en að auki eru nokkrar spurningar í léttari kantinum. Lokaspurningin vísar svo til slagorða framboðsins eða flokksins sem þeir standa fyrir. Að sjálfsögðu tóku þau öll vel í umleitanir blaðsins þó mikið væri að gera á öllum vígstöðvum á lokasprettinum.
Vonandi verða lesendur einhvers vísari um frambjóðendurna tíu og nái að kynnast þeim þó ekki væri nema lítillega og þau mál sem þeir vilja setja á oddinn nái þeir kjöri þann 25. september nk.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir