Fl(j)óð, Ljósmyndasýning eftir Juanjo Ivaldi Zaldívar

Mynd frá sýningunni.
Mynd frá sýningunni.

Juanjo Ivaldi Zaldívar stendur fyrir ljósmyndasýningu um konur af erlendum uppruna sem búa í Húnaþingi vestra. Sýningin miðlar sögum 33 kvenna af erlendum uppruna sem búa í sveitarfélaginu - sýningin fagnar rótum þeirra og vekur umræður um stöðu erlent fæddra kvenna sem búa í Húnaþingi vestra og á Íslandi almennt.

Verkefnið er unnið að frumkvæði Húnaþings vestra og mun í framhaldinu þróast út í bók um sama efni. Sýningarstjóri er Greta Clough.

Undanfarna mánuði hafa Juanjo og Greta heimsótt þátttakendur á heimilum sínum og vinnustöðum, fræðst um fortíð þeirra og skipst á reynslu af því að vera innflytjendur á Íslandi. Í Húnaþingi vestra eru skráðar um 120 konur með erlent ríkisfang. Í þeirri tölu eru ekki taldar með konur sem eru fæddar erlendis en hafa síðan fengið íslenskan ríkisborgararétt.

„Það er svo falleg fjölbreytni í sögum þátttakenda. Hver þeirra hefur einstaka lífsreynslu og ástæður fyrir því að vera hér. Sem innflytjandi getur okkur oft fundist að það sé einhvern veginn ætlast til þess að við gefum okkur algerlega á vald því að verða íslensk, að lífsreynsla okkar, menningarlegur bakgrunnur, þekking og vöxtur heillrar mannsævi sé hunsuð eða skipt út fyrir illa ígrundaðar alhæfingar. Það var auðmýkjandi og upplífgandi að heyra sögur þessara ótrúlegu kvenna. Það er kominn tími til að falla frá þeirri hugmynd að innflytjendur þurfi að hverfa algjörlega inn í íslenskt samfélag til að vera hluti af því og tími til að fagna þessari fjölbreytni" segir Greta.

Í gegnum linsu Juanjo Ivaldi Zaldívar fangar Flj(ó)ð kjarna ferðalags þessara kvenna og þau miklu áhrif sem þær hafa haft á Húnaþing vestra. Hver ljósmynd segir einstaka sögu um seiglu, sköpun og sigur yfir áskorunum og sýnir hvernig þessar konur hafa ekki aðeins samþætt sig heldur einnig orðið óaðskiljanlegur hluti af litrofi samfélagsins.

Flj(ó)ð í Húnaþingi vestra er meira en sýning; hún er yfirlýsing um vilja samfélagsins til að umfaðma umheiminn og læra af mörgum menningarheimum hans. Þessi hátíð fjölbreytni er áminning um það að þegar við opnum hjörtu okkar og huga fyrir öðrum, auðgum við líf okkar ómælanlega og styrkjum samfélagsgerð okkar.

Sýningin opnar 25. júlí kl. 18:00 í Íþróttamiðstöð Hvammstanga og verður opin meðan á Eldi í Húnaþingi stendur. Eftir Eldinn verður sýningin sýnd víðsvegar um sveitarfélagið.

 

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir