Erfið ferð Húnvetninga austur á Reyðarfjörð

Húnvetningar spiluðu á Reyðarfirði í dag og eitthvað lagðist ferðalagið þungt í menn því heimamenn höfðu gert þrjú mörk í fyrri hálfleik í Fjarðabyggðarhöllinni og þar við sat. Lið Kormáks/Hvatar færðist þar með niður í níunda sæti 2. deildar en getur huggað sig við að liðin í deildinni eru tólf. Lokatölur 3-0 fyrir KFA.

Vörn gestanna lak á fimmtán mínútna fresti í fyrri hálfleik en ekki náðist að skrúfa fyrir fyrr en í hálfleik. Fyrsta markið kom eftir 15 mínútur en það gerði Matheus Gotler. Eiður Orri Ragnarsson bætti svo við tveimur mörkum, því fyrra á 29. mínútu og síðan á 45. mínútu.

Samkvæmt upplýsingum Feykis vantaði nokkra sterka pósta í lið gestanna sen fóru heim að þessu sinni án stiga, án marka og án þess að hafa litið spjald í leiknum. Að lokinni fyrri umferð 2. deildar er Kormákur/Hvöt semsagt í níunda sæti með 12 stig en liðið á næst heimaleik á Blönduósvelli gegn toppliði Selfyssinga nk. laugardag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir