Einn í einangrun á Norðurlandi vestra

Tafla af Covid.is sem sýnir fjölda í einangrun og sóttkví eftir landshlutum.
Tafla af Covid.is sem sýnir fjölda í einangrun og sóttkví eftir landshlutum.

Á covid.is var einn skráður í einangrun á Norðurlandi vestra í dag og samkvæmt heimildum Feykis var þar um starfsmann sundlaugarinnar á Hofsósi að ræða. Þar var öllu skellt í lás meðan á sótthreinsun stóð.

„Lauginni var lokað og verður það þar til búið er að þrífa samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis. Ráðleggingum rakningateymis almannavarna er fylgt í hvívetna, þar sem viðkomandi starfsmaður er kominn í einangrun og þeir sem taldir eru útsettir fyrir smiti eru komnir í sóttkví,“ segir Þorvaldur Gröndal forstöðumaður íþróttamannvirkja hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.

Hann segir stöðuna verða metna á morgun eftir þrif en telur líklegt að takamarka þurfi opnunartímann þar sem smitið heggur ansi stórt skarð í starfsmannahópinn.

„Sveitarfélagið Skagafjörður hvetur svo alla þá viðskiptavini sem heimsóttu laugina um helgina og í gærmorgun að fara í sýnatöku finni þeir til einhverra einkenna,“ segir hann.

Alls voru sjö skráðir í sóttkví í dag á Covid.is, jafn margir og sl. laugardag en þá var enginn í einangrun. Á landinu öllu voru 80 innanlandssmit frá síðasta sólahring, 844 einstaklingar í einangrun og 2.079 í sóttkví. Alls eru ellefu manns á sjúkrahúsi og tveir á gjörgæslu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir