Byggðarráð Húnaþings vestra fagnar áformum Landsnets
Húnahornið segir af því að byggðarráð Húnaþings vestra fagni áformum Landsnets um að reisa 220 kV háspennulínu frá fyrirhuguðu tengivirki á Holtavörðuheiði að Blöndustöð. „Um er að ræða brýna framkvæmd sem eykur afhendingaröryggi og bætir aðgengi að orku í sveitarfélaginu sem hefur verið af skornum skammti um langt árabil. Aukið afhendingaröryggi og bætt aðgengi að orku í sveitarfélaginu er ein meginforsenda bættra búsetuskilyrða og atvinnuuppbyggingar,“ segir í umsögn ráðsins til Skipulagsstofnunar.
Í fréttinni segir að Húnaþing vestra hafi átt fulltrúa í verkefnaráði Landsnets sem skipað var um framkvæmdina. Í umsögn byggðarráðs er lýst yfir ánægju með þá vinnu sem þar hefur farið fram og því víðtæka samráði sem haft hefur verið við hagaðila. Byggðarráð gerir ekki athugasemd við matsáætlunina vegna framkvæmdanna.
Heimild: Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.