Börnum boðið á Byggðasafnið að Reykjum

Mynd frá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna.
Myndin er tekin af FB-síðu safnsins
Mynd frá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna. Myndin er tekin af FB-síðu safnsins

Á vef Húnaþings kemur fram að þann 18. ágúst næstkomandi verði 11 og 12 ára börnum boðið að koma í heimsókn á Byggðasafnið að Reykjum frá 10:00 – 12:00.
Heimsókninni verður skipt í tvo ólíka hluta. Í fyrri hluta heimsóknarinnar fá börnin að ganga um safnið og skoða þar safngripi úr héraðinu. Á safninu er kjörið tækifæri til að upplifa gamla tíma, setjast inn í gömlu baðstofuna frá Syðsta- Hvammi eða kíkja í stofuna frá Tungunesi. Að því loknu er farið í ratleik og Vermannaleiki, en það eru fornir leikir sem vermenn iðkuðu þegar ekki gaf til róðra. Í síðari hluta heimsóknarinnar verður kíkt á hákarlaskipið Ófeig, en það var byggt árið 1875 og er eina varðveitta skip sinnar tegundar á Íslandi.
Í lokin verður boðið upp á samlokur og drykki fyrir börnin.

Akstur verður í boði frá Hvammstanga, Víðihlíð, Staðarskála og Borðeyri. Brottfarartímar verða sendir þátttakendum þegar skráning liggur fyrir.

Enginn þátttökukostnaður er fyrir heimsóknina, aksturinn eða veitingar.

Skráningarfrestur er til og með 11. júní. Skráning í heimsóknina og akstur fer fram hér.

/IÖF

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir