Bjarni vill að Vatnsnesvegur verði eitt forgangsverkefna í samgöngubótum
Bjarni Jónsson, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi ræddi uppbyggingu Vatnsnesvegar á alþingi í dag og bendir á hve slæmur hann er og nauðsynlegt sé að byggja hann upp, breikka og leggja bundið slitlag sem allra fyrst. „Vatnsnesvegur er stórhættulegur og úr sér genginn og stendur engan veginn undir þeirri umferð sem um hann fer. Vegurinn er lífæð byggðarinnar og ekið daglega með skólabörn um holótta skemmda vegi þar sem jafnvel stuttar vegalengdir verða að dagpörtum á ferðalagi við ömurlegar og viðsjárverðar aðstæður,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.
Hann benti jafnframt á að í stjórnarsáttmála segi að markvisst verði unnið að lagningu bundins slitlags á tengivegi til að styðja við atvinnu- og byggðaþróun og auðvelda skólaakstur á svæðum sem nú búa við malarvegi.
„Sú stefnumörkun verður að koma fram í nýrri samgönguáætlun sem unnið er að. Umhverfis og samgöngunefnd alþingis bíður enn eftir að fá drög af henni í hendur. Svigrúm verður að gefast fyrir umhverfis og samgöngunefnd alþingis að vinna og setja mark sitt á áætlunina eins og er hennar lögbundið hlutverk,“ segir í ræðu Bjarna en hana er hægt að lesa HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.