Ályktanir frá flokksráðsfundi Vinstri grænna

Frá flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um helgina. Aðsend mynd.
Frá flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um helgina. Aðsend mynd.

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs var haldinn nú um helgina 27. til 28. ágúst, á Ísafirði. Á fundinum voru samþykktar fimm ályktanir er lúta að fjölgun leikskólakennara, öryggi í flugsamgöngum, félagsleg undirboð og launaþjófnað og vindorku. Þá kemur meðal annars fram í ályktun frá stjórn hreyfingarinnar að stutt verði við hugmyndir um hækkun veiðigjalda, endurskoða lög sem lúta að gagnsæi um raunverulega eigendur sjávarútvegsfyrirtækja og að spornað verði gegn samþjöppun í sjávarútvegi.

Ályktanir fyrir flokksráðsfund VG á Ísafirði 27.-28. ágúst 2022

1 Ályktun um að fjölga leikskólakennurum
Flokksráðsfundur VG á Ísafirði 27. – 28. ágúst skorar á ríki og sveitarfélög að taka höndum saman og efla fyrsta menntastig barna með því m.a. að bæta kjör og starfsaðstæður leikskólakennara svo að leikskólakennarastarfið verði eftirsóttara en raun ber vitni. Þá á að lengja fæðingarorlofið enn frekar og koma upp fjölskyldumiðstöðvum að erlendri fyrirmynd þar sem foreldrar ungra barna geta sótt fræðslu og komið saman með ung börn sín á meðan á fæðingarorlofi stendur.

Ályktun um öryggi í flugsamgöngum
Flokksráðsfundur VG á Ísafirði 27. – 28. ágúst telur mikilvægt að öryggi í flugsamgöngum, sem teljast til almenningssamgangna fyrir þá sem búa á landsbyggðinni, verði tryggt en núverandi þjónusta er með öllu óviðunandi. Þær aðstæður sem íbúar á landsbyggðinni hafa þurft að búa við í flugsamgöngum undanfarin misseri hafa meðal annars haft alvarleg áhrif á atvinnutækifæri, læknisheimsóknir og fjárhag einstaklinga. Röskun á áætlunarflugi er mikið í þessari mikilvægu grunnþjónustu sem íbúar á landsbyggðinni reiða sig á og úr því þarf að bæta hið fyrsta

Ályktun um félagsleg undirboð og launaþjófnað
Flokksráðsfundur VG á Ísafirði 27.-28. ágúst 2022 hvetur þingmenn og ráðherra Vinstri grænna til þess að hafa frumkvæði að því að styrkja lagaumhverfi á vinnumarkaði í því skyni að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og launaþjófnað. Brýn þörf er á endurskoðun laga nr. 45/2007 um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda og laga nr. 139/2005 um starfsmannaleigur. Ljúka þarf afgreiðslu frumvarps til nýrra heildarlaga um starfskjör launafólks í þessu tilliti. Efla þarf eftirlitsstofnanir og skerpa á viðurlögum.

Fólk á flótta sem kemur hingað og sækist eftir vinnu á íslenskum vinnumarkaði er í mjög viðkvæmri stöðu og hætta á því að það verði fórnarlamb félagslegra undirboða og launaþjófnaðar. Við þessum aðstæðum þarf að bregðast með sérstökum aðgerðum.

Ályktun um vindorku
Flokksráðsfundur VG á Ísafirði 27.-28. ágúst 2022 ítrekar þá afstöðu Vinstri grænna að ekki verði ráðist í uppbyggingu vindorkuvera, annarra en þeirra tveggja sem þegar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, fyrr en stefna um uppbyggingu vindorku liggur fyrir sem og almennur og skýr lagarammi um gjaldtöku af vindorkuverum. Umhverfisrannsóknir og náttúruverndarsjónarmið eiga að vera grundvöllur fyrir ákvörðunum um uppbyggingu í þágu orkunýtingar. Vinstri græn telja að uppbygging vindorku eigi heima á mjög fáum þegar röskuðum svæðum með tengingu við vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar en eðlilegt er að fyrirtæki sem er í almannaeigu hafi forgang í þessum málum. Frá upphafi verður að ríkja sátt um nýtingu þessarar auðlindar. Kalla þarf eftir afstöðu almennings og félagasamtaka m.t.t. náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiða og eignarhalds vindorkuvera hérlendis. Þá þarf að setja skýrar reglur um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuverum sem renna á til samfélagsins. Marka þarf stefnu hið fyrsta um nýtingu vindorku í efnahagslögsögunni.

Vindurinn er orkuauðlind sem tryggja þarf að nýtist í þágu samfélagsins alls, í sátt við náttúru og umhverfi og uppbygging nýtingarinnar þarf að lúta lögum og reglum um mat á umhverfisáhrifum og heyra undir lög um rammaáætlun. Fundurinn hvetur forystu og þingmenn hreyfingarinnar til þess að halda afstöðu Vinstri grænna á lofti og vera jafnframt leiðandi í umræðunni um orkuskipti í samgöngum og haftengdri starfsemi.

Stjórnmálaályktun
Flokksráðsfundur Vinstri grænna haldinn á Ísafirði 27.-28. ágúst 2022 lýsir yfir stuðningi við hugmyndir um hækkun veiðigjalda, þar sem sérstaklega er tekið tillit til smærri útgerða, endurskoðun laga sem lúta að gagnsæi um raunverulega eigendur sjávarútvegsfyrirtækja og að sporna gegn samþjöppun í sjávarútvegi. Stórútgerðin hefur haldið áfram að skila hagnaði í gegnum heimsfaraldur og innrás Rússa í Úkraínu og á að leggja meira til samfélagsins. Þá lýsir fundurinn yfir stuðningi við áform um að stækka félagslega hluta fiskveiðistjórnunar-kerfisins. Full þörf er á bættri fjármögnun hafrannsókna sem þurfa að vera mun víðtækari á tímum þar sem vistkerfi sjávar er í hættu vegna loftslagsbreytinga, súrnunar sjávar og plastmengunar.

Eitt stærsta verkefni samtímans er aðgerðir gegn loftslagsvánni. Fundurinn lýsir yfir stuðningi sínum við metnaðarfull áform í loftslagsmálum sem fram koma í stjórnarsáttmála, þar með talið aðgerðir í orkuskiptum og minni notkun jarðefnaeldsneytis og útfösun þess, en ekki síður í orkusparnaði, nýjum orkugjöfum, aukinni kolefnisbindingu, bættri nýtingu úrgangs og breytingum í landbúnaði og sjávarútvegi. Auka þarf kolefnisbindingu, m.a. með gróðri, en þó verði þess gætt að grípa sem minnst inn í náttúrulega gróðurframvindu og vanda þannig staðarval stórvaxinna og áberandi tegunda, einkum þeirra sem sá sér út sjálfar og breiðast út til nálægra svæða. Setja þarf skýrari verklagsreglur og tryggja eftirlit fagaðila til að milda árekstra loftslagsaðgerða og náttúruverndar.

Tryggja þarf réttlát umskipti í öllum atvinnugreinum ekki síst landbúnaði þar sem miklu skiptir að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar samhliða því að draga úr kolefnisspori matvælaframleiðslu.

Fundurinn lýsir stuðningi sínum við áform um sjálfstæða mannréttindastofnun og fagnar þeim áföngum sem náðst hafa á undanförnum árum til að tryggja réttindi allra til að vera þau sjálf. Fundurinn ítrekar mikilvægi þess að ráðist verði í aðgerðir gegn hatursorðræðu og að stjórnvöld beiti sér fyrir fræðslu um þau málefni í menntakerfi og atvinnulífi. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess bakslags sem sjá má í orðræðu um hinsegin fólk. Fundurinn fagnar jafnframt að innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefst í haust.

Fundurinn lýsir stuðningi við baráttu launafólks fyrir mannsæmandi kjörum. Lífskjarasamningarnir skiluðu almenningi í landinu verulegum kjarabótum og hafa verið undirstaða þess árangurs sem hefur náðst við að vernda kaupmátt og atvinnustig. Ábyrgir kjarasamningar eru mikilvægir til að tryggja efnahagslega velsæld en þeir munu ekki nást meðan laun stjórnenda hækka óhóflega og risavaxnar arðgreiðslur eru greiddar út til fjármagnseigenda. Gæta þarf þess að laun stjórnenda ríkisstofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins hækki ekki upp úr öllu valdi úr takti við almenna launaþróun í landinu. Ef svigrúm er til þess þá er svigrúm til launahækkana fyrir launafólk. Fundurinn ítrekar að það er hagsmunamál okkar allra að ná farsælum samningum á vinnumarkaði. Brýnt er í þeim samningum að bæta kjör hinna verst settu og halda áfram innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar sem gagnast samfélaginu öllu.

Áfram þurfa stjórnvöld að leggja sitt af mörkum til að bæta kjör hinna tekjulægstu, vinna markvisst gegn fátækt barna og styðja við barnafjölskyldur.

Fundurinn ítrekar mikilvægi þess að afkoma öryrkja og eldri borgara verði tryggð. Endurskoða þarf almannatryggingakerfi örorkulífeyrisþega þannig að það verði í senn sanngjarnara og gagnsærra og skoða þarf sérstaklega stöðu hinna tekjulægstu í hópi eldri borgara og öryrkja. Einnig er mikilvægt að fjölga atvinnutækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu og efla starfsendurhæfingu við hæfi. Fundurinn fagnar því að ráðast á í endurskoðun á þjónustu við eldra fólk með það að markmiði að auka fjölbreytni og samhæfa félags- og heilbrigðisþjónustu. Fundurinn ítrekar mikilvægi stefnumótunar í málefnum innflytjenda og flóttafólks og að stjórnvöld taki vel á móti þessum hópum og styðji vel við inngildingu þeirra. Vinstri græn fagna hve vel virðist ætla að takast að greiða götu flóttafólks frá Úkraínu í íslenskt samfélag og hve fljótt það hefur fengið vinnu og færi á að aðlagast. Hins vegar eru enn hindranir við móttöku fólks á flótta sem þarf að ryðja úr vegi og til þess þarf m.a. að efla samstarf opinberra aðila.

Þá ítrekar fundurinn mikilvægi þess að standa vörð um og efla almannaþjónustu og þrátt fyrir snúna stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar verði uppbyggingu opinberrar heilbrigðisþjónustu og menntakerfis haldið áfram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir