Afar sjaldgæfir flækingar sem gætu haslað sér völl á Íslandi

Taumgæs þekkist meðal annars á hvítum taumi niður um hliðar hálsins. Hún verpir í Mið-Asíu en hver veit nema hún sé að leita sér að hentugu hreiðurstæði í Skagafirði. Hér sjást þrjár taumgæsir af fimm sem sáust við Þrastarstaði á Höfðaströnd. Myndir: Elvar Már Jóhannsson.
Taumgæs þekkist meðal annars á hvítum taumi niður um hliðar hálsins. Hún verpir í Mið-Asíu en hver veit nema hún sé að leita sér að hentugu hreiðurstæði í Skagafirði. Hér sjást þrjár taumgæsir af fimm sem sáust við Þrastarstaði á Höfðaströnd. Myndir: Elvar Már Jóhannsson.

Það er alltaf gaman að geta birt myndir af sjaldséðum fiðruðum gestum hér á Fróni og ekki verra ef þeir láta sjá sig hér norðan lands. Á mánudag í síðustu viku náði hinn lunkni myndasmiður Elvar Már Jóhannsson myndir af afar sjaldséðum fuglum á Þrastarstöðum á Höfðaströndinni í Skagafirði svokölluðum taumgæsum, Anser indicus sem líklega má telja til evrópskra flækinga.

Það er ekki um auðugan garð að gresja þegar leitað er upplýsinga um þessa tegund gæsa á íslenskum vefmiðlum en í grein í Morgunblaðinu frá 2016 er sagt frá framandi gæsategundum sem eru farnar að gera sig líklegar til að nema land hér á landi og vitnað í dr. Arnór Þóri Sigfússon, dýravistfræðings hjá Verkís, sem telur vænlegt að íslensk stjórnvöld ákveði hvernig bregðast skuli við ef framandi gæsategundir fari að hasla sér völl á Íslandi. Þar eru nefndar kanadagæs, taumgæs og snjógæs sem reynt hafi varp hér og sumar komið upp ungum.

„Kanadagæs og snjógæs eru af amerískum uppruna en taumgæs kemur frá Himalajafjöllum. Þessar gæsir voru fluttar til Bretlands og hafðar þar í fuglagörðum en var sleppt eða sluppu þaðan og urðu villtar,“ segir í greininni.

Tignarlegar taumgæsir

Taumgæs þekkist meðal annars á hvítum taumi niður um hliðar hálsins. Hún verpir í Mið-Asíu og hefur sést á flugi í 8 þúsund metra hæð yfir Himalajafjöllunum, segir í afar stuttri lýsingu á tegundinni á Vísindavefnum.
Aðspurður um hvort taumgæsirnar hafi verið styggar segir Elvar Már það ekki vera: „Þær voru mun rólegri en hinar sem voru þarna. Þessar fældust ekki upp fyrr en grágæsin, sem var lengra frá, reif sig upp,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir