Á sveitaballi :: Kristrún Örnólfsdóttir minnist Skagafjarðar – 2. hluti

Kristrún Þórlaug Örnólfsdóttir f. 29.03 1902 d. 16.08 1978 skrifaði eftirfarandi frásögn í „Sóley“, handskrifað blað kvenfélagsins í Súgandafirði: Ég fór til Skagafjarðar vorið 1923 og var þar á sama bæ í 2 og 1/2 ár. Bærinn hét Sjávarborg. Var það skammt frá Sauðárkróki eða í kringum hálftíma gangur út á Krókinn. Ég fór, því miður, óvíða um Skagafjörð. Fór einu sinni fram að Reynistaðarétt, út að Meyjarlandi á Reykjaströnd, yfir í Blönduhlíð að Syðribrekkum og Hofsstöðum og 4 bæi á Hegranesi; Ás, Ríp, Helluland og Vatnskot. Ennfremur kom ég að Gili, Hólkoti, Brennigerði og Borgargerði og svo oft út á Krók, því þangað áttum við kirkjusókn.

Nú langar mig að segja ykkur frá einni sveitaskemmtun sem ég var á. Við höfðum frétt að halda ætti skemmtun í Ási í Hegranesi 1. des. 1923. Þangað langaði okkur til að fara ef vötnin yrðu orðin manngeng. Var nú farið að ráðgast um hvernig hægt væri að komast þetta, því allar vorum við ókunnugar.

Við vorum fjórar sem fórum og fengum húsbóndann til að fylgja okkur yfir að Hellulandi. Þá var ísinn svo þunnur að hann gekk í bylgjum undir fótunum á okkur og víða urðum við að snúa frá og fara aðra leið, en bóndinn hafði staf til að reyna fyrir sér. Samt gekk þetta slysalaust.

Við stóðum við góða stund á Hellulandi og þáðum kaffi og kökur hjá Ólafi Sigurðssyni laxaklaksráðunaut og Ragnheiði Konráðsdóttur konu hans. Þau ætluðu líka á skemmtunina, en voru ekki ferðbúin strax, svo við fengum Hróbjart Jónasson til að fylgja okkur yfir nesið.

Það var sæmilega gott veður en dálítil ófærð. Við komum að Ási góðri stundu áður en skemmtunin átti að byrja og vorum við búnar að hvíla okkur og laga okkur til. Þarna var fólk lengst framan úr Blönduhlíð, utan úr Viðvíkursveit, fram úr Sæmundarhlíð og frá flestum bæjum úr nesinu. Ég þekkti fátt af því, en sumt hafði ég séð áður.

Til skemmtunar var ræðuhöld, upplestur, kórsöngur, einsöngur og dans. Einsöngvarinn var unglingur innan við tvítugt, vinnumaður í Ási og hét Stefán Guðmundsson, en nú þekktur undir nafninu Stefanó Íslandi. Hann söng prýðilega og var skemmtunin yfirleitt ágæt. Veitingar voru í efra húsinu.

Það var dansað í 2 stofum og spilað til skiptis á orgel og harmóníku. Þá var það í fyrsta sinn að ég var með í vísnamarsi, voru þær margar góðar og smellnar og hleyptu fjöri og glaðværð í alla. Ég lenti í því að vera fyrsta par með Stefáni Guðmundssyni, en vísan sem við fengum var ekki falleg, hún er svona:

Samboðin ég svanna tel,
sæmdum hjörva rafti.
Það er sagt að skörðótt skel,
skældum hæfi kjafti.

Dansað var um klukkan 8 um morguninn, þá var farið að tygja sig til heimferðar, en nú var kominn skafrenningur og meira frost. Á leiðinni var komið við í Vatnskoti og drukkin mjólk, síðan var haldið áfram að Hellulandi. Þar hvíldum við okkur í klukkutíma og þáðum góðgerðir og Hróbjart fengum við til að fylgja okkur alla leið heim og var þá klukkan orðin 3 um daginn. Vorum við orðnar mjög þreyttar og urðum fegnar að fara að sofa. Höfðum við skemmt okkur ágætlega og vorum ánægðar.

Kristrún Þ. Örnólfsdóttir
ES: Prentað upp úr handriti höfundar með hennar stafsetningu og stíl. KHB.

---

Feykir fékk sendar þrjár sögur frá Kristjáni Helga Björnssyni á Hvammstanga sem móðir hans ritaði niður frá veru sinni á Sjávarborg. Fyrsta sagan, Í vinnumennsku á Sjávarborg, birtist í 9. tbl. Feykis 2022 og sú þriðja bíður birtingar við tækifæri. Feykir þakkar sendinguna og hvetur aðra til að senda blaðinu efni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir