37% vilja láta síðari talningu í NV-kjördæmi gilda
Enn er tekist á um talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi í kjölfar alþingiskosninganna sem fram fóru 25. september síðastliðinn. Nú hafa að minnsta kosti ellefu aðilar kært kosningarnar til Alþingis og þegar þessi frétt er skrifuð er undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa að funda. Mjög skiptar skoðanir eru ríkjandi varðandi málið en í nýrri könnun Gallup sem RÚV segir frá kemur í ljós að flestir telji að seinni talning eigi að standa.
Gallup gaf þátttakendum í könnuninni fjóra svarmöguleika; að láta fyrri talningu atkvæða gilda, seinni talningu gilda, kjósa aftur í Norðvesturkjördæmi eða kjósa á ný á landinu öllu. 37% svarenda töldu að seinni talning ætti að gilda, 28% að fyrri talning ætti að ráða ferð, 24% vildu að kosið yrði á ný í Norðvesturkjördæmi og 12% töldu að kjósa ætta á ný á öllu landinu.
Eftir fyrri talninguna í Norðvesturkjördæmi, þar sem tölur stemmdu ekki, var niðurstaðan á landsvísu á þann veg að fleiri konur en karlar voru kosin á þing. Smávægilegar breytingar í seinni talningu settu hinsvegar af stað svokallaða uppbótarþingmannarúllettu sem leiddi til þess að karlar enduðu fleiri á þingi.
Meðal þeirra sem hafa kært kosningarnar eru þeir sem misstu sæti á þingi í kjölfar endurtalningar. Samkvæmt lögum ber að innsigla kjörgögn að lokinni talningu en það var ekki gert að lokinni fyrri talningu en kjörgögn munu hafa verið geymd í læstu herbergi. Nú er tekist á um hvort þetta sé næg ástæða til að ógilda kosningarnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.