Væri til í að gera aðra tilraun til að komast á tónleika með McCartney / RÖGGI VALBERGS
Það er Rögnvaldur S. Valbergsson organisti í Sauðárkrókskirkju sem svarar Tón-lystinni að þessu sinni. Röggi er fæddur 1956 og hefur víða komið við í tónlistinni í gegnum tíðina. Hann ólst upp í Fljótunum, sonur Valbergs Hannessonar kennara og skólastjóra og Áshildar M. Öfjörð. Um hvert hljóðfærið hans sé segir Röggi: „Það er nú það, ætli ég þykist ekki helst vera orgelleikari , uppáhaldshljóðfæri er náttúrlega Hammond orgelið.“
Spurður um hver helstu afrek hans á tónlistarsviðinu séu segir hann af alþekktu lítillæti: „A, ja nú veit ég ekki, búinn að músisera víða og með mörgum. Kannski best að vera ekkert að gera upp á milli.“ Það kemur því í hlut umsjónarmanns Tón-lystarinnar að nefna að Rögnvaldur hefur í árafjöld kennt við Tónlistarskóla Skagafjarðar og verið organisti við Sauðárkrókskirkju frá því á síðustu öld. Þá hefur hann vitaskuld spilað með Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar og fleiri hljómsveitum, stjórnað Karlakórnum Heimi yfir tvær vertíðir en Röggi hefur stjórnað nokkrum kórum í gegnum tíðina auk þess sem hann hefur komið að tónlistarflutningi hjá Leikfélagi Sauðárkróks og svona mætti lengi áfram telja.
Hvaða lag varstu að hlusta á? Trúlega eitthvað sem ég er að vinna með, ekki viss, það er svo margt í gangi.
Uppáhalds tónlistartímabil? Um 1960 og upp úr því. Þá komu Bítlarnir og allt hitt í kjölfarið. Upp úr 1970 er tímabilið þegar ég fer að hlusta á poppmúsík fyrir alvöru, en svo hlusta ég auðvitað á miklu fleira, t.d. barokk músík og klassík.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ekkert sérstakt, hlusta nú ekki mikið á músík nema ég þurfi að vinna með eitthvað lag.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Allt mögulegt, helst það sem hljómaði á gömlu gufunni.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ekki viss, kannski plata með Credeence Clearwater Revival.
Hvaða græjur varstu þá með? Það hlýtur að hafa verið Garrard plötuspilari og Telefunken útvarpstæki sem var til á heimilinu, eignaðist reyndar kasettutæki um fermingu og þá tók maður upp úr útvarpi ofl.
Hvaða músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? Mig minnir að það hafi bara verið útvarpstæki í bílnum á heimilinu svo það hefur bara verið rás eitt, ég eignaðist sjálfur bíl seint.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ekki viss, ef mér leiðist eitthvað slekk ég bara á því. Reyni nú samt að vera frekar fordómalaus.
Hvað er fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Sennilega Molina með CCR. (Credeence)
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Bara Bítlana.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ætli ég myndi ekki taka konuna með mér og skella mér á Paul McCartney. Við vorum búin að kaupa miða á tónleika með honum í Danmörku árið 2011, en þeir voru slegnir af vegna tónleika annarstaðar hjá honum, svo ekki varð af því þá.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Það er nú það, ég myndi alveg vilja hafa spilagetuna og færnina frá Rick Wakeman og Keith Emerson en ekki viss um að ég vildi vera þeir í raun, annar farinn yfir móðuna miklu og hinn orðinn ansi útlifaður að sjá.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Ég held ég treysti mér ekki til að svara þessu, kannski einhver Bítlaplatan eða Night At The Opera með Queen. Svo fnnst mér hljómsveitin Chicago alltaf afar góð.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Er reyndar ekki með neitt svoleiðis, en ef svo væri þá myndi ég skoða, t.d. In My Life með Bítlunum, If You Leave Me Now með Chicago, Living Sin með Emerson Lake and Palmer, Grand Hotel með Procol Harum, Love Of My Life með Queen og kannski Too Old To Rock’n Roll með Jehtro Tull.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.