Táraðist af gleði þegar Lordi sigraði Júróvisjón / NÖKKVI ELÍASAR
Það er AC/DC aðdáandinn Nökkvi Elíasson sem svarar Tón-lystinni í þetta skiptið. Nökkvi býr í Reykjavík og er rafeindavirki og ljósmyndari, tveggja barna faðir í sambúð og höfundur þriggja ljósmyndabóka.
Hann er fæddur á Sauðárkróki og ólst upp á Hólmagrundinni fyrstu 20 árin, sonur Elíasar B. Halldórssonar listmálara og Ásthildar Sigurðardóttir og þar með bróðir þeirra Sigurlaugs og Gyrðis. Nökkvi spilar ekki á hljóðfæri og segist engin afrek hafa unnið á tónlistarsviðinu.
Hvaða lag varstu að hlusta á? Lagið Cheap Thrills með söngkonunni Sia. Er að nota það lag í vinnunni til að búa til janúar trailer fyrir Stöð 2. Kominn með það alveg á heilann mér til mikillar mæðu. Flott lag samt.
Uppáhalds tónlistartímabil? 1970-1990. Enda eitt það besta í sögu rokksins þar sem hver perlan á fætur annari leit dagsins ljós.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Allt sem heitir rock’n’roll. Er nánast alæta á allt slíkt. En Maroon 5 koma sterkir inn þessa dagana. Frábær hljómsveit þar á ferð.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Aðallega var það klassísk tónlist eða harmóniku tónar. Poppið var litið hornauga, hvað þá þungarokkið sem ég setti í botn inní herbergi.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Kasettan Tass með Jóhanni Helgasyni sem kom út 1981 var fyrsta verkið sem ég keypti mér. Það var hlustað á þessa kasettu mörg hundruð sinnum og fannst mér þetta eitthvað það besta sem komið hafði út. Ógleymanlegar minningar frá þeim tíma áður en rokkið tók svo yfir í mínum huga.
Hvaða græjur varstu þá með? Átti forláta Sharp stæðu sem var botnkeyrð við öll hugsanleg tækifæri. Fáranlega góð græja sem endaði fyrir rest á haugunum. Blessuð sé minning hennar.
Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Mig langaði alltaf mikið í Iron Maiden plötuna Number of the Beast en fékk aldrei. Endaði á því að kaupa hana sjálfur. Það var ekki mikið um tónlistargjafir á mínu heimili. Bækur voru aðalmálið
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Næstum allt sem heitir rapp eða reggý. Núna er það Reykjavík með Emmsjé Gauta. Með fullri virðingu fyrir honum þá gæti ég ælt við það eitt að hlusta á það til enda.
Uppáhalds Júróvisjónlagið? Lordi - Hard Rock Hallelujah. Táraðist af gleði þegar þeir unnu keppnina 2006. Besta lag keppninar til þessa enda ekki mikill aðdáandi þessara keppni. Reyni eftir megni að sleppa við að horfa á þetta. Tekst nánast alltaf.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Klárlega eitthvað með Rammstein. Til dæmis plötuna Mutter sem er gargandi snilld. Það fíla allir smá Rammstein enda ekki annað hægt. Get ekki beðið eftir að sjá þá á tónleikum í sumar.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Þögnina. Vanmetnasta tónlistin til þessa.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég færi klárlega aftur á tónleika með AC/DC og nú með Axl Rose sem forsöngvara. Það er ekki hægt að toppa það. Væri ein sæluvíma út í gegn. Frábærir saman þó ég væri eins og flestir aðrir smá skeptiskur á það samstarf eftir að Brian Johnson missti heyrnina.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? Þungarokkinu var blastað út um hliðarrúðurnar af miklum móð á Króknum. Sveitir eins og Judas Priest og Iron Maiden voru þar fremstar í flokki.
Hvaða tónlistarmaður hefur haft mest áhrif á þig? Það er einfalt. Gítarleikari AC/DC, Angus nokkur Young. Get þeitt flösunni í allar áttir við að hlusta á lögin hans. Einn mesti snillingur rokksögunnar.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Back In Black með AC/DC. Gæti reyndar nefnt margar aðrar plötur með þessari frábæru sveit, en þessi stendur uppúr. Engin plata í náinni framtíð að fara að toppa hana.
Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
1. Play Ball /AC/DC
2. One Hit To The Body/ The Rolling Stones
3. The Beautiful People/Marilyn Manson
4. Sweet Child O’ Mine/ Guns N’Roses
5. Breaking The Law/ Judas Priest
6. Panama/ Van Halen.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.