„Mér fannst Jóhanna Guðrún alveg æðisleg“ / INGUNN KRISTJÁNS
Ingunn Kristjánsdóttir, fædd árið 1990, er Króksari í húð og hár en foreldrar hennar eru Sigríður Margrét Ingimarsdóttir og Kristján Örn Kristjánsson. Ingunn hefur stundað nám í Bandaríkjunum síðustu árin og útskrifaðist með bachelor í sálfræði frá University of Florida í maí 2014 og stundar nú mastersnám í atferlisfræði við University of the Pacific í Stockon í Kaliforníu. Hún spilar smá á gítar en segist vera alveg „...pro á hristur en annars er það bara röddin sem er mitt aðal hljóðfæri.“ Hún söng sitt fyrsta lag inn á plötu árið sem hún fermdist. „En ætli það standi ekki uppúr að hafa verið í öðru sæti í söngkeppni framhaldsskólanna 2008 og svo var ég auðvitað í hljómsveitinni Batterý og SENSE – good times!“
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? -Það fer algjörlega eftir því í hvernig skapi ég er, hvaða tónlist fær mig til að sperra eyrun en verð alltaf að vera með einhverja tónlist í gangi í kringum mig. Hlusta rosalega mikið á Pandora á netinu þar sem að maður getur valið hverskonar tónlist maður vill hlusta á. Síðan bý ég til lagalista með mismunandi tónlistarmönnum og lögum.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? -Var alveg rosalega heppin með það að það var hlustað á allskonar tónlist á mínu heimili. Mamma var að læra óperusöng þegar ég var lítil svo að ég heyrði oft klassíska tónlist, pabbi spilaði á trommurnar sínar úti í skúr með allskonar lögum. Ef að ég var með Ingimar afa þá var það Pavarotti og Dóra amma með Rás1 í gangi. Hjá Sigurbjörgu ömmu og Kristjáni afa þá var það auðvitað Elvis Presley. Kannski er það þessvegna sem að ég á mér engan uppáhalds söngvara – get hlustað á allt.
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? -Ætli það hafi ekki verið fyrsti Spice Girls diskurinn.
Hvaða græjur varstu þá með? -Einhverja svakalega “græju” sem var með kasettuspilara og allt!
Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? -Mér fannst Jóhanna Guðrún alveg æðisleg og minnir að það hafi verið fyrsti diskurinn sem að ég fékk í jólagjöf.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? -It’s Friday Friday, gotta get down on Friday …ég örugglega búin að eyðileggja daginn fyrir einhverjum núna!
Uppáhalds Júróvisjónlagið? -Never Ever Gonna Let You Go með Rollo & King.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -Haha, það fer eftir því hvort að það væri partý heima á Íslandi eða í Bandaríkjunum. Væri meira RnB, Rapp og EDM ef að það væri í Bandaríkjunum og meira popp og hip hop heima... myndi líka spila mun fleiri íslensk lög í partýi heima.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? -John Mayer, Jason Mraz eða Michael Bublé.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Ég væri alveg til í að fara á Adele eða Michael Bublé tónleika með mömmu. Ég væri alveg til í að fara bara hvert sem er, til í allt!
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? -Hvaða kona væri ekki til í að vera Beyonce?!
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? -Ég held að ég eigi mér bara enga uppáhalds plötu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.